Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að það hefði haft áhrif á hvernig ákæra var byggð upp í svonefndu Aserta-máli, sem varðaði meint brot á gjaldeyrisreglum Seðlabanka Íslands (SÍ), ef vitað hefði verið að viðkomandi reglur gætu ekki talist viðhlítandi refsiheimild.
Ástæðan er sú að lögáskilið samþykki ráðherra fyrir reglunum lá ekki fyrir. Af þessum sökum féll ákæruvaldið, þ.e. sérstakur saksóknari, frá veigamesta hluta ákærunnar. Ólafur Þór segir fleiri mál af sama toga hafa verið látin niður falla hjá embættinu þegar þetta kom í ljós.
Sérstakur saksóknari óskaði eftir umræddum gögnum frá Seðlabankanum í nóvember 2013 og fékk það svar að þau hefðu ekki fundist. Var þá hálft ár liðið frá útgáfu ákærunnar. Fram kemur í nýju áliti umboðsmanns Alþingis, að hann hafi í ársbyrjun 2011 ekki fengið réttar upplýsingar frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og SÍ um hvort samþykki ráðherra væri til.