Greiðslur sem Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra fékk frá Orku Energy voru vegna starfa hans fyrir fyrirtækið á árinu 2011. Hvorki Illugi Gunnarsson né félög tengd honum, standa í skuld við Orku Energy.
Þetta kemur fram í stuttri fréttatilkynningu frá Arctic Green Energy (áður Orku Energy) vegna fjölmiðlaumfjöllunar um störf Illuga Gunnarssonar fyrir Orku Energy á árinu 2011.
Í viðtali við Fréttablaðið í dag segir Illugi að Orku Energy-málið muni örugglega ekki bæta hans stöðu en hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að svara ekki spurningum fjölmiðla varðandi tengsl sín við fyrirtækið og stjórnarformann þess, Hauk Harðarson.
Það sem meðal annars hefur verið rætt um er að Illugi og eiginkona hans seldu Hauki íbúð sína og leigja hana síðan af Hauki. Þetta gerðu þau vegna mikillar skuldsetningar.
Frétt mbl.is: Bætir örugglega ekki stöðu mína segir Illugi
Í viðtali við Fréttablaðið í dag segir hann að Haukur sé einn af sínum nánustu vinum. „Það er ekkert óeðlilegt að það sé spurt að þessu, en já, það er svo. Þess vegna var ég ekkert að selja Orku Energy íbúðina okkar hjóna. Ég seldi þessum vini mínum, hann keypti hana og ég afhenti í staðinn þessa eign. Síðan var gerður með okkur samningur um húsaleiguna. Sá samningur nær til áramóta núna. Og nú erum við hjónin að leita okkur að nýrri íbúð til að kaupa. Og þið ætlið ekkert að kaupa gömlu íbúðina aftur? „Nei, þó að okkur langi um margt til þess. Okkur líður vel þarna og stelpan okkar þekkir ekkert annað. En ég verð að segja alveg eins og er að það er komið óbragð í munninn á manni með þetta mál allt saman, svo það hentar ágætlega að skipta um stað. Við erum ekki stór fjölskylda og þurfum ekki mikið pláss,“ segir í viðtali við Illuga í Fréttablaðinu í dag.
Frétt mbl.is: Með kvittun fyrir veiðiferðinni