Mikilvægt að bæta gæðin og gæta öryggis

Frá málþinginu í dag.
Frá málþinginu í dag. Ljósmynd/Magnús Heimisson

„Það sem mér finnst skipta mestu máli varðandi byggingu nýs Landspítala er að bæta gæði þjónustunnar og auka öryggi sjúklinga. Með byggingu nýs sjúkrahúss þá mun það leiða af sér mikinn fjárhagslegan ávinning með aukinni hagræðingu meðal annars með þvi að sameina bráðamóttökur,“ sagði Hulda Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi forstjóri Landspítalans, á opnu málþingi hollvinasamtakanna Spítalinn okkar sem haldið var í dag á Hótel Natura í Reykjavík.

„Starfsumhverfið mun breytast og sameiningin mun leiða til margra jákvæðra þátta í starfsmannamálum. Nálægð Landspítala við Háskóla Íslands mun stuðla að öflugra vísindastarfi og mun nýr Landspítali verða mikilvæg stoð í íslensku samfélagi fyrir komandi kynslóðir.  Með nýjum Landspítala þá verður hægt að fullnýta allt sem ný upplýsingatækni býður upp á,“ sagði hún ennfremur. Anna Stefánsdóttir, formaður „Spítalinn okkar“, sagði á fundinum:

„Með nýjum meðferðarkjarna nýs Landspítala,sem verður tekinn í notkun eftir 7 – 8 ár, lýkur sameiningu á bráðastarfsemi Landspítala. Þetta hefur í för með sér að mikinn faglegan ávinning fyrir allt þjóðfélagið.  Með málþinginu í dag þá vildu samtökin sýna fram á hversu brýnt það er að hefja byggingu nýs Landspítala. Ef fram fer sem horfir mun nýtt þjóðarsjúkrahús við Hringbraut marka þáttaskil í uppbyggingu á góðri heilbrigðisþjónustu.“

Birgir Jakobsson landlæknir sagði í erindi sínu að þegar nýr spítali yrði byggður þyrfti að skoða vel verkefnið í heild sinni. Aðrir fyrirlesarar voru Gísli Georgsson, verkfræðingur á Landspítala, Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, Guðmundur Þorgeirsson læknir og Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, og lokaorð flutti Ólöf Nordal, innanríkisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert