Einbeittur ásetningur vó þyngra en tálbeita

Konan flutti efnin til Íslands frá Amsterdam í Hollandi.
Konan flutti efnin til Íslands frá Amsterdam í Hollandi.

Dómi Héraðsdóms Reykjaness yfir hollenskri konu sem var dæmd í 11 ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnasmygl verður áfrýjað til Hæstaréttar. Það verður gert á næstu dögum að sögn verjanda hennar. Hann undrast að ekki hafi verið tekið meira tillit til þess hversu samvinnufús hún var við rannsókn málsins þegar dómur var kveðinn upp. 

Ljóst þykir að málið verði ekki tekið á dagskrá Hæstaréttar fyrr en eftir áramót og því nokkrir mánuðir í að endanleg niðurstaða fáist í málið.

Eins og greint var frá í síðustu viku, hlaut Mirjam Foekje van Twuijver 11 ára dóm fyrir innflutning á fíkniefnum.  Íslenskur maður á þrítugsaldri, Atli Freyr Fjölnisson, var dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir að hafa tekið við efnunum hér á landi.

Van Twuijver kom ásamt dótt­ur sinni til lands­ins í helgarferð 3. apríl með flugi frá Amster­dam. Alls voru þær mæðgur með sam­tals 9 kg af am­feta­míni, 194,81 grömm af kókaíni og 10 kg af MDMA fal­in í tveim­ur ferðatösk­um. Dótturinni var sleppt en van Twuijver var ákærð fyrir stórfellt fíkniefnasmygl.

Konan var m.a. tekin með 10 kg af MDMA.
Konan var m.a. tekin með 10 kg af MDMA. mbl.is/Kristinn

Ekkert svigrúm til hærri refsinga gagnvart skipuleggjendum

Málið hefur vakið töluverða athygli enda einn þyngsti dómur sem hefur verið kveðinn upp í fíkniefnamáli hér á landi. Margir hafa velt því fyrir sér af hverju burðardýr hljóti svo þungan dóm, sér í lagi í ljósi þess að konan játaði brot sitt að hluta og liðsinnti lögreglu við rannsókn málsins. Refsiramminn fyrir brotið er 12 ár. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði eftir að dómurinn lá fyrir, að þegar refsiramminn væri nýttur í botn gagnvart burðardýrum væri ekkert svigrúm til hærri refsinga gagnvart eigendum efnanna og skipuleggjendum innflutnings þeirra.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að van Twuijver sagðist hafa liðsinnt lögreglu eins og hún gat við rannsókn málsins, fundið Facebook-síðu pars sem fékk hana í leiðangurinn, auk þess að finna út hvar þau bjuggu. Þá hafi hún tekið þátt sem tálbeita eftir að hún var handtekin hér á landi. Van Twuijver kvað afleiðingar þess að hafa liðsinnt við rannsókn málsins vera að hún gæti aldrei farið í heimabyggð sína aftur þar sem hún óttist um líf sitt. Hún hafi fengið hótanir. Þá hafi vinir hennar snúið baki við henni vegna málsins.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjaness að þetta hefði verið …
Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjaness að þetta hefði verið þriðja ferð konunnar til landsins í þeim tilgangi að flytja inn fíkniefni eða aðstoða við það, Um einbeittan ásetning væri því að ræða og það var konunni til refsiþyngingar. mbl.is/ÞÖK

Verjandi og saksóknari vísuðu til þess að hún hefði liðsinnt lögreglu

Bæði verjandi van Twuijvers, Jóhannes Árnason og ákæruvaldið fóru fram á að tekið yrði tillit til samvinnufýsi hennar við dómsuppkvaðninguna. Hulda María Stefánsdóttir saksóknari segir í svari við fyrirspurn mbl.is, að í máflutningi ákæruvaldsins við aðalmeðferð málsins hafi verið vísað til þess að konan játaði brot sitt að hluta og vísað til þess að hún hafi liðsinnt lögreglu við rannsókn málsins.

Jóhannes segir í samtali við mbl.is, að svo virðist sem að dómurinn virðist líta til þess að refsiþyngingarástæður vegi upp á móti refsimildunarástæðunum. Hann segir að það sé heldur ósanngjarnt í þessu máli.

Jóhannes segir að það sé mjög mikilvægt, hvað varðar svona mál almennt, að ef sakborningur taki þá ákvörðun að vera samvinnuþýður og veita lögreglu aðstoð við rannsókn mála, að tekið sé fullt tillit til þess. 

Jóhannes Árnason, verjandi Mirjam.
Jóhannes Árnason, verjandi Mirjam. mbl.is/Ómar

Mikil áhætta getur fylgt því að vera tálbeita

„Reynslan segir okkur það, að í fæstum tilvikum tekur sakborningur þá ákvörðun að aðstoða lögregluna á nokkurn hátt, ef þeir á annað borð vita eitthvað.“ Það sé meira en að segja það að taka þátt í lögregluaðgerð sem tálbeita. Það sé ekki sama hverjir séu settir í þá aðstöðu, enda fylgi því mikil áhætta auk þess sem það geti haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Aðspurður segir Jóhannes, að hann hafi lagt mikla áherslu á samvinnufýsi van Twuijvers við aðalmeðferð málsins. Hann segir ennfremur að hún hafi játað sinn þátt í málinu og að sömuleiðis eigi að líta á það til refsimildunar. „Það hefur verið hennar frásögn frá upphafi að hún hafi ekki vitað af fíkniefnunum í tösku dóttur sinnar og að hún hafi sérstaklega gert samning um það að svo yrði ekki,“ segir Jóhannes. Það hafi hins vegar verið svikið.

„Það er lagt upp það í vörninni, að hún eigi að bera ábyrgð á þeim þætti sem hún ætlaði sér að gera en hún geti ekki tekið ábyrgð á hinni töskunni,“ segir Jóhannes. Þá beri að líta til þess hversu samvinnuþýð hún hafi verið. 

Einbeittur ásetningur, magn og styrkleiki efna ástæður refsiþyngingar

Í dómi héraðsdóms segir, að það sé van Twuijver til refsimildunar að hún hafi veitt lögreglu liðsinni eftir að hún var handtekin og játaði að nokkru leyti. Auk þess sé ekki vitað um að hún hafi sakaferil að baki.Til refsiþyngingar verður hins vegar að líta til einbeitts ásetnings ákærðu, en þessi ferð var þriðja ferð hennar til landsins í þeim tilgangi að flytja inn fíkniefni eða aðstoða við það, og þess mikla magns og styrkleika efnanna sem ákærða flutti til landsins.

Þá segir: „Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið og með hliðsjón af þeim dómum sem gengið hafa um sambærileg sakarefni á liðnum árum, er refsing ákærðu ákveðin fangelsi í ellefu ár.“

Erfitt að vera samvinnufús ef hvatinn er enginn 

Jóhannes heldur því fram að lögregluaðgerðin hafi farið út um þúfur þar sem lögreglan hafi ekki haft hendur í hári höfuðpauranna sem skipulögðu fíkniefnaflutninginn. Jóhannes segir að það hafi varla verði tilgangur aðgerðarinnar. „Ég trúi ekki öðru en að tilgangurinn hafi verið sá að elta þessi efni eins langt og hægt var,“ segir hann.

Þá segir Jóhannes, að ef lögreglan og ákæruvaldið ætlist til þess að sakborningar séu almennt samvinnuþýðir í svona málum, þá verði menn að átta sig á því að slík samvinna verði ekki í boði sé ekki tekið tillit til þess þegar dómar eru kveðnir upp. „Það er eitthvað sem löggjafinn vill ekki, hvað þá ákæruvaldið eða rannsakarar, vegna þess að þetta er það sem er mikilvægast í rannsóknarþættinum. Að ná að upplýsa mál hratt og örugglega eftir að þau komast upp. Ef hvatinn er enginn þá er ljóst að það mun ganga mjög erfiðlega að fá sakborninga til að vera samvinnuþýða.“ Ljóst sé að málið snúi einnig að löggjafanum.

Eins og kom fram hér að ofan þá er búið að taka ákvörðun um að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Dómurinn var birtur van Twuijver formlega í gær, en hún var ekki viðstödd uppkvaðningu dómsins sl. fimmtudag. Jóhannes hennar segir að formlega verði gengið frá áfrýjun á næstu dögum. 

Aðspurður segist hann ekki eiga von á því að málið verði sett á dagskrá Hæstaréttar fyrr en eftir áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka