Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra birti í kvöld á Facebook-síðu sinni skattframtöl sín og konu sinnar Brynhildar Einarsdóttur fyrir árin 2012 og 2013. Tilefnið er fréttaflutningur Stundarinnar um að félagið OG Capital ehf., sem var í eigu Illuga, hafi árið 2012 fengið 1,2 milljónir króna í verktakagreiðslur frá fyrirtækinu orka Energy. Þar megi sjá að hann hafi engar greiðslur fengið frá OG Capital árin 2012 eða 2013.
„Vegna fréttar Stundarinnar frá því í dag, sem byggð er á ónafngreindum heimildarmanni, hef ég ákveðið að stíga það skref að birta upplýsingar úr skattframtali okkar Brynhildar vegna ársins 2012 og ársins 2013. Skattframtöl okkar eru unnin af löggiltum endurskoðanda. Þar koma launagreiðslur til okkar hjóna fram og þar sést að árið 2012 fæ ég laun frá Orku Energy upp á kr. 5.621.179 eins og ég hafði áður greint frá og sýnt launaseðil fyrir. Engar launagreiðslur, arðgreiðslur eða aðrar greiðslur eru til mín eða konu minnar frá fyrirtækinu OG Capital á árinu 2012 eða á árinu 2013. Á árinu 2013 fór félagið úr minni eigu,“ segir Illugi á Facebook-síðunni.