Börn þekkja almennt til heimilisofbeldis

Málþingið bar yfirskriftina: Birtingarmynd ofbeldis frá sjónarhóli þolenda - Afleiðingar …
Málþingið bar yfirskriftina: Birtingarmynd ofbeldis frá sjónarhóli þolenda - Afleiðingar og samfélagslegur kostnaður. mbl.is/Golli

Kannanir hafa leitt í ljós að börn þekkja almennt til heimilsofbeldis og hafa skoðanir á því. Þetta á bæði við um börn sem hafa upplifað heimilisofbeldi og þau sem ekki hafa af því persónulega reynslu. Auka þarf fræðslu fyrir starfslið skóla og kenna rétt viðbrögð, en dæmi gefa til kynna að ekki sé hlustað á börn þegar þau reyna að tilkynna um ofbeldi.

Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Guðrúnar Kristinsdóttur, prófessors á menntavísindasviðið Háskóla Íslands, á málþingi Félagsfræðingafélags Íslands sem haldið var á Grand hótel í morgun. Þingið bar yfirskriftina Birtingarmynd ofbeldis frá sjónarhóli þolenda: Afleiðingar og samfélagslegur kostnaður.

Guðrún kynnti niðurstöður rannsóknar sem gerð hefur verið skil í bókinni Ofbeldi á heimili - Með augum barna, en hún var þrískipt og fól í sér skólakönnun sem náði til 1.100 barna, eigindleg viðtöl við börn og mæður sem bjuggu við langvarandi heimilisofbeldi, og athugun á efni prentmiðla, lýsandi tölfræði og orðræðugreiningu.

Í erindi sínu fór Guðrún stuttlega yfir hvað vitað væri um heimilisofbeldi: Það fæli í sér kúgun á heimilisfólki, mörgum aðferðum væri beitt, þögn og leynd væri beitt sem kúgunartækjum og ekki væri um einstakan atburð að ræða, svo eitthvað sé nefnt. Þá sagði hún ofbeldið fela í sér svik, þar sem heimili og fjölskylda fælu í sér hugmyndir um ást og öryggi.

Guðrún sagði börn upplifa ofbeldi á margvíslegan hátt; sum væru sjálf beitt líkamlegu og/eða andlegu ofbeldi, en önnur upplifðu aðra á heimilinu beitta ofbeldi. Hún sagði að þau börn sem rætt var við hefðu verið mjög fús til að segja frá, en þau lýstu m.a. varnarleysi, ótta og skelfingu í ofbeldisaðstæðum, og því að vera stöðugt á varðbergi.

Þá sæktu á börnin áleitnar minningar löngu eftir að ofbeldinu lyki og unglingar sérstaklega lýstu því að fyllast reiði og gremju vegna aðgerðarleysi samfélagsins, t.d. aðgerðarleysi lögreglu þegar hún væri kölluð til.

Hvað varðar ofbeldismanninn sögðust börnin upplifa bæði reiði og væntumþykju gagnvart honum, en skýringarnar sem þau gáfu á ofbeldinu voru margvíslegar; s.s. veikindi eða neysla.

Rætt var við sextán börn og mæður þeirra, og m.a. leitað eftir ráðum barnanna til annarra barna.  Þar var m.a. nefnt að láta vita, tala um ofbeldið, leita til aðila utan heimilisins, ræða vð ofbeldismanninn, láta ofbeldið ekki buga sig, vera við öllu búin og nota reynsluna til góðs.

Guðrún sagði skólakönnunina hafa leitt í ljós að börn þekktu almennt til heimilisofbeldis og hefðu á því skoðanir. Þá tækju þau eindregna afstöðu gegn heimilisofbeldi. Hún sagði niðurstöður rannsóknarinnar í heild m.a. þær að auka þyrfti fræðslu fyrir starfslið skóla og kenna rét viðbrögð. Sagði hún frá því að einn drengur hefði lýst því hvernig hann hefði leitað til skólastjóra, sem hefði brugðist við með því að vísa honum út að leika.

Guðrún sagði athuganir á umfjöllun prentmiðla hafa leitt í ljós að menn vildu rjúfa þögnina um heimilisofbeldi, bæði sérfræðingar og þeir sem hefðu upplifað ofbeldi. Þá sagði hún að auka þyrfti samtöl foreldra við börn, en ofbeldi lægi oft í þagnargildi þar til það væri yfirstaðið og þá kæmi í ljós að börnin vissu meira en foreldrar höfðu gert ráð fyrir. Talaði Guðrún um „gagnkvæma verndarhyggju“ í þessu sambandi.

Hún viðraði einnig vangaveltur sínar um hugtakanotkun í umræðunni um ofbeldi og sagðist gagnrýnin á orðin „gerandi“ og „þolandi“. Hún sagði að tala ætti um „ofbeldismenn“ í stað „gerendur“ óháð kyni og sagði orðið „þolandi“ einnig erfitt, þar sem skilja mætti það sem svo að verið væri að tala viðkomandi niður.

Guðrún Kristinsdóttir prófessor.
Guðrún Kristinsdóttir prófessor. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert