Úr gæsluvarðhaldi í farbann í fíkniefnamáli

Parið kom til landsins með Norrænu.
Parið kom til landsins með Norrænu.

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra sem úrskurðaði hollenska konu til að sæta gæsluvarðhaldi í umfangsmiklu fíkniefnamáli. Hæstiréttur dæmdi konuna hins vegar í farbann og er henni bönnuð för frá Íslandi allt til 21. október.

Lögreglustjórinn á Austurlandi grunar konuna um mjög stórfelldan innflutning á fíkniefnum með því að hafa flutt til landsins mjög mikið magn af MDMA sem var falið í bifreið, sem hafi komið með ferjunni Norrænu til Seyðirsfjarðar að morgni 8. september sl. Konan var farþegi, en eiginmaður hennar ökumaður.  Lögreglustjórinn segir að maðurinn hafi játað sök, en konan neiti sök og kveðist ekkert hafa vitað um efnið.

Engar skynsamlegar skýringar

Lögreglustjórinn á Austurlandi, segir að ekki sé samræmi með framburði konunnar og mannsins og ekki hafi komið skynsamlegar skýringar á þessu ósamræmi.

 „Þá hafi hún borið skýrt um að þau eiginmaðurinn hafi verið í fjárhagskröggum, en samt hafi þau ákveðið að fara í dýra Íslandsferð.  Kærða hafi engar skynsamlegar skýringar gefið á því hvaðan hún telji að peningar til fararinnar hafi komið.  Hún sé því ennþá undir rökstuddum grun um að hafa tekið þátt í innflutningi efnisins.  Sendar hafi verið til útlanda beiðnir um rannsókn ákveðinna atriða, sem m.a. beinist að því að upplýsa um þátttöku kærðu.

Sóknaraðili segir um að ræða rökstuddan grun um stórfellt fíkniefnabrot, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi og kærða sé orðin meira en 15 ára gömul.“

Héraðsdómur sagði í sínum úrskurði, að þrátt fyrir eindregna neitun konunnar og ákveðinn framburð eigin­manns hennar, að rökstuddur grunur beindist ennþá að henni um stórfellt brot sem gæti varðað fangelsi. „Kærða sætir ekki lengur ein­angrun, en engu að síður telur dómurinn að fallast verði á það að hætta sé á að hún geti torveldað þá rannsókn sem enn er unnið að samkvæmt ofangreindu, ef hún gengur laus, með því að hafa áhrif á samseka eða vitni,“ segir í úrskurði héraðsdóms. Var konan því úrskurðuð í áframhaldandi gæsluvarðhald.

Ekki sýnt fram á hagsmuni til að konan sæti áfram gæsluvarðhaldi

Í dómi Hæstaréttar segir, að konan hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 9. september 2015 vegna rökstudds gruns um aðild að innflutningi á miklu magni fíkniefna hingað til lands. Þá hafi  henni gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu en henni hefur nú verið aflétt.

„Að virtum gögnum málsins hefur sóknaraðili ekki leitt í ljós að enn séu fyrir hendi rannsóknarhagsmunir til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi,“ Hins vegar, þar sem konan hafi engin tengsl við landið, var henni bönnuð brottför af landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka