Magnús Jónasson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar á Siglufirði, er grunaður um fjárdrátt fyrir um 100 milljónir króna hjá Sparisjóði Siglufjarðar og er það mun hærri fjárhæð en kært var fyrir, að Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara.
Vísir greindi fyrst frá fjárhæðinni í morgun.
Ólafur segir í samtali við mbl.is að við rannsókn málsins hafi komið nýjar upplýsingar fram, færslur sem hver ein er skoðuð sjálfstæð. Í einhverjum tilvikum er verið að skoða þær betur og segir hann að fjárhæðin geti bæði hækkað og lækkað.
Rannsókn á fjársvikunum stendur yfir og ekki er ljóst hvenær ákæra verður lögð fram í málinu.
Átta starfsmenn embættis sérstaks saksóknara fóru til Siglufjarðar í lok september og voru tveir handteknir í tengslum við rannsóknina.
Um nokkurra ára tímabil er að ræða en í yfirlýsingu frá AFLi sparisjóði, sem áður hét Sparisjóður Siglufjarðar, frá því í byrjun október kemur fram að eftir fyrirspurn frá sérstökum saksóknara, í alls óskyldu máli, hafi komið upp rökstuddur grunur um fjárdrátt fyrrum skrifstofustjóra AFL sparisjóðs og í framhaldi af því hafi málið verið kært til sérstaks saksóknara.
Á fundi bæjarstjórnar 6. október sl. baðst Magnús lausar á embætti forseta bæjarstjórnar.