Mikilvægt að forðast rakt húsnæði

mbl.is/Árni Torfason

Síðustu vikur og mánuði hafa borist fregnir af myglusvepp í húnæði ýmissa stofnana á höfuðborgarsvæðinu. Í síðustu viku sagði mbl.is frá myglusvepp í húsnæði KFUM og K við Holtaveg og um helgina tilkynnti Veðurstofan að þar hefði komið upp mygla. Einnig hefur verið sagt frá myglu á ýmsum deildum og skrifstofum Landspítalans.

Að sögn Sylgju Daggar Sigurjónsdóttur hjá fyrirtækinu EFLA/Hús og heilsa, sem sérhæfir sig í því að rannsaka og gefa ráðgjöf varðandi raka og myglu í húsum, er talið að raki finnist í 20-50% húsa hér á landi miðað við spurningakannanir sem eru til. Þar sem raki er viðvarandi eru líkur á að það komi mygla.

„Þar sem gró kemst í gott æti og vatn við ákveðið hitastig vex upp mygla af gróum sem hafa til dæmis lokast inni einhvers staðar á byggingartíma,“ segir Sylgja í samtali við mbl.is. Hún segir marga leita til EFLU vegna raka og myglu. „Þegar mikið er að gera segir það okkur að vandinn er mikill. Við viljum frekar hafa mikið að gera við forvarnir í þessum málum.“ Að sögn Sylgju þarf ekki að tilkynna myglu til ákveðinnar stofnunar komi hún upp og ekki eru til opinberar tölur um fjölda tilvika þar sem mygla hefur komið upp.

„En það sem skiptir máli er að fólk átti sig á því að í flestum húsum geturðu fundið einhverja myglu í einhverju magni. Til dæmis í votrýmum á yfirborði eða við rúður. Það sem skiptir máli er umfangið og í rauninni orsökin,“ segir Sylgja og nefnir sem dæmi sílekandi glugga eða leka í þaki. „Ef þú ert með glugga sem lekur ertu kominn með vandamál. En ef þú ert með svarta bletti í kíttinu inni á baði eða bletti í lofti ofan við sturtu og ekkert annað að í húsinu skiptir máli hvernig fólk bregst við. Þá þarf að fjarlægja kíttið og þrífa úr loftinu. Það eru viðbrögð og þekking íbúa sem skiptir þar máli.“

Hún segir að lifnaðarhættir íbúa geti haft einhver áhrif en þó ekki ef um vatnstjón eða viðvarandi leka er að ræða. „Það er mikilvægt að vera duglegur að lofta út, opna gluggana og fylgjast með loftraka, sérstaklega á veturna. Það er t.d. ekki mælt með því að þurrka þvott, elda og fara í sturtu án þess að hafa opið út. Þegar við sjáum móðu á gluggum er það vísbending um vandamál,“ segir Sylgja og bætir við að hægt sé að fá lítinn loftrakamæli á 2000-3000 krónur sem breytir miklu með eftirlit. Þá er hægt að fylgjast með þegar loftrakinn eykst og bregðast við. Einnig þurfi að huga að reglulegu viðhaldi húsnæðis og stöðva leka um leið og hans verður vart. 

En það að opna glugga og fylgjast með loftraka hefur lítil áhrif í heildarmyndinni ef húsnæðið lekur. Að sögn Sylgju eru það bæði húseigendur og fulltrúar fyrirtækja og stofnana sem hafa samband við EFLU vegna loftgæða, raka og myglu. „Það eru mörg fyrirtæki sem koma til okkar og vilja leysa vandamálið. Okkar þjónusta snýst um að að finna orsökina og lausnina í framhaldinu.“ Hún segir það færast í aukana að haft sé samband til þess að láta kanna fyrirtæki og annað áður en upp kemur vandamál. „Fólk vill fyrirbyggja stærra vandamál og bregðast við strax.“

Sylgja segir tengslin milli raka, myglu og heilsufars sönnuð. „Við vitum að það eru tengsl þarna á milli en orsakasamhengið er óljóst. Tengslin eru sönnuð en ekki orsakaþátturinn, hvað það er nákvæmlega í rökum húsum sem hefur áhrif á heilsu. En í lýðheilsulegu tilliti er mælt með því að fólk forðist rakt húsnæði.“  

Fyrri fréttir mbl.is: 

Senda veðurfréttir út frá fundarsal

Tjón upp á 20-30 milljónir

Grunur um myglu á kvennadeildinni

Sylgja segir að viðbrögð íbúa við myglu og raka skipti …
Sylgja segir að viðbrögð íbúa við myglu og raka skipti mestu máli. mbl.is/Hús & heilsa
Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Húss & heilsu.
Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Húss & heilsu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert