Áfrýja þungum fíkniefnasmyglsdómum

Frá Hæstarétti.
Frá Hæstarétti. mbl.is/Styrmir Kári

Báðir sakborningarnir í stóru fíkniefnasmyglsmáli sem hlutu þunga fangelsisdóma í síðustu viku hafa áfrýjað dómnum til Hæstaréttar. Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi Atla Freys Fjölnissonar sem hlaut fimm ára dóm staðfestir að þeim dómi hafi verið áfrýjað. Hollensk kona sem hlaut ellefu ára dóm hefur einnig áfrýjað.

Atli Freyr var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku fyrir sinn hlut í smyglinu. Honum var gefið að sök að hafa tekið við miklu magni af amfetamíni, kókaíni og MDMA sem hollenska konan kom með til landsins í tveimur ferðatöskum frá Amsterdam.

Vilhjálmur segir hins vegar algerlega ósannað að skjólstæðingur sinn hafi vitað um innihald tasknanna, hvað þá um það magn efna sem þar var að finna. Því krefst hann þess að Atli Freyr verði sýknaður, til vara að málinu verði vísað aftur heim í hérað en til þrautavara að refsing hans verði milduð.

Hann segist eiga von á að Hæstiréttur taki málið fljótt fyrir enda hljóti það forgang þar sem hollenska konan situr í gæsluvarðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka