„Enn eru talsverðir fordómar gagnvart offitu og meðferðarúrræði hefur skort,“ segir Erla Gerður Sveinsdóttir, heimilislæknir, lýðheilsufræðingur og formaður Félags fagfólks um offitu.
Hún er önnur tveggja lækna sem nýlega fengu leyfi frá Sjúkratryggingum til að sinna þeim einstaklingum sem stríða við alvarlega offitu.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hún, að hingað til hafi sjúkdómurinn ekki verið meðhöndlaður eins og aðrir langvinnir sjúkdómar þótt hann hafi verið skilgreindur sem slíkur í áratugi. 59.000 Íslendingar eru taldir þjást af offitu, 55.000 fullorðnir og 4.000 börn.
Að sögn Erlu Gerðar eru 20% íslenskra barna yfir kjörþyngd og 5% þjást af offitu. Þetta þýðir að rúmlega 15.000 börn eru of þung og tæplega 4.000 þjást af offitu. Hún segir að heilsugæslan bjóði upp á ýmis úrræði og Heilsuskóli barnaspítalans veiti meðferð þeim börnum sem verst standa, en þar eru m.a. kenndar aðferðir til að takast á við þyngdarstjórnun og auka lífsgæði. Samkvæmt upplýsingum frá Heilsuskólanum hafa 350 börn verið þar til meðferðar undanfarin fjögur ár og biðlisti er hálft ár.