Pétur K. Maack, fyrrverandi flugmálastjóri og framkvæmdastjóri flugöryggissviðs Flugmálastjórnar, lést 14. október síðastliðinn, 69 ára að aldri.
Pétur fæddist í Reykjavík 1. janúar 1946. Foreldrar hans voru Karl Maack húsgagnasmíðameistari og Þóra Maack húsmóðir. Pétur ólst upp í Reykjavík og gekk í Menntaskólann í Reykjavík. Hann lauk fyrrihlutaprófi í verkfræði frá HÍ árið 1968 en gekk svo í Danmarks tekniske Højskole í Danmörku og lauk þaðan meistaraprófi í vélaverkfræði og doktorsprófi í rekstrarverkfræði árið 1975. Hann var dósent við Háskóla Íslands á árunum 1975-1986 og sinnti prófessorsstöðu við sama skóla til 1997.
Pétur tók í framhaldinu við starfi framkvæmdastjóra flugöryggissviðs hjá Flugmálastjórn Íslands og starfaði þar í um áratug eða til ársins 2007. Síðustu ár starfsævi sinnar gegndi hann embætti flugmálastjóra, eða frá 1. janúar árið 2007 til 1. júlí árið 2014.
Pétur var sæmdur heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands árið 2000, sem m.a. er veitt fyrir vel unnin störf á sviði verkfræði og vísinda. Þá var hann einnig meðal fyrstu heiðursfélaga í Gæðastjórnunarfélagi Íslands árið 1999.
Eftirlifandi eiginkona Péturs er Sóley Ingólfsdóttir, leikskóla- og sérkennari. Þau eiga þrjú uppkomin börn; Valgerði Maack, f. 1973, Andreu Maack, f. 1977, og Heiðrúnu Maack, f. 1982. Þá eiga þau sex barnabörn.
Útför Péturs fer fram frá Neskirkju fimmtudaginn 22. október kl. 13.