Jafnvel í undirfataiðnaðinn

Rich Piana og Sara Heimisdóttir.
Rich Piana og Sara Heimisdóttir. Morgunblaðið/Ingólfur Guðmundsson
„Þetta var um 500 manna veisla og þrátt fyrir að við værum á síðustu stundu með allt og á þönum var þetta frábærlega vel heppnað allt saman. Við þurftum að sinna vinnutengdum erindum fyrr um daginn og höfðum líklega ekki nema um 15 mínútur til að taka okkur til fyrir stóru stundina!“ segir nýjasti tengdasonur Íslands, Rich Piana, sem stórt nafn í vaxtarræktar- og fitnessheiminum ytra.

Tæplega 2 milljónir manna hafa skoðað myndband á Youtube úr brúðkaupi hans og nýbakaðrar eiginkonu hans, Söru, sem áður var Heimisdóttir en ber nú eftirnafn eiginmannsins.

Rich keppti í fjöldamörg ár í fitness og vaxtarrækt en það eru nokkur ár síðan hann lagði keppnismennskuna alveg á hilluna og einbeitir sér nú að fyrirtæki sínu, 5%, sem selur samnefnt fæðubótarefni og fitnessklæðnað. Sara, sem er 26 ára og hefur búið í Bandaríkjunum frá því hún var tvítug, hefur einnig ákveðið að hella sér út í fyrirtækjareksturinn með honum en markaðssetning á vörumerkinu snýst ekki síst um að Rich flaggi útliti sínu og karakter á Youtube sem og þau hjónin bæði. Þau hafa aðeins þekkst í 5 mánuði en giftu sig fyrir nokkrum vikum á Mr. Olympia-sýningunni í Las Vegas – Rich segist ekki mæla með því að nokkur leiki það eftir. Það sé ekki sniðugt að láta reyna svo stutt á sambönd áður en fólk lætur pússa sig saman. Þau hafi verið undantekning frá þeirri reglu.

Líf þeirra Söru og Rich Piana er Íslendingum flestum heldur framandi. Þau búa í 500 fermetra villu í rólegu úthverfi Los Angeles og dagurinn þeirra fer í að taka myndir, myndbönd, markaðssetja fyrirtækið, sækja sýningar þar sem fólk stendur í þriggja klukkutíma biðröð til þess eins að sjá Rich Piana og auðvitað er það að fara í ræktina og æfa heima stór hluti af þeirra lífi. En þess á milli segjast þau hið rólegasta fólk sem vilji heldur fara í bíó og vera heima með hundunum en að dansa á klúbbum.

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgina er spjallað við þau hjónin en Ingólfur Guðmundsson ljósmyndari myndaði þau í bak og fyrir á heimili þeirra í úthverfi Los Angeles. Í viðtalinu segist Rich hlakka mikið til að koma til Íslands á næsta ári í heimsókn, skoða landslagið og íslenskar líkamsræktarstöðvar sem hann segist sjá af myndum að séu ótrúlega flottar.

Þau hjónakorn hafa margt á prjónunum í rekstrinum og framundan eru fleiri verkefni en 5%.

„Ég sé einhvern veginn tækifærin í öllum hornum. Ég get nefnt sem dæmi að við vorum í verslunarmiðstöð um daginn, fórum inn í Victorias Secret í leit að undirfötum handa Söru og áttum í mestu vandræðum með að finna brjóstahaldara sem pössuðu henni. Svo að ég fór að hugsa: Auðvitað ættum við að opna undirfataverslun með sérsaumuðum brjóstahöldurum. Ég veit að Sara er ekki eina konan sem er í vandræðum með að finna brjóstahaldara sem passar henni fullkomlega. Ég sæi vel fyrir mér að það væri hægt að koma í undirfataverslun, fá fullkomna mælingu og svo sérsaumaðan brjóstahaldara.“

Sara segist vera ákaflega ánægð að hafa tekið þetta stökk í lífinu að flytja til Bandaríkjanna. „Ég elska Ísland en tækifærin eru hérna fyrir mig núna og ég hvet alla til að ferðast eins mikið og þeir hafa tök á til að sjá hvort heimurinn bjóði þeim hugsanlega upp á önnur og fleiri tækifæri en í heimahögum. Það er nefnilega aldrei að vita.“

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert