Magnúsi Ver dæmdar 600 þúsund krónur

Magnús Ver Magnússon
Magnús Ver Magnússon mbl.is/Friðrik Tryggvason

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag íslenska ríkið til að greiða Magnúsi Ver Magnússyni 600 þúsund krónur í miskabætur vegna eftirlits sem hann sætti af hálfu lögreglunnar í tengslum við rannsókn á meintri aðild hans að stórfelldum innflutningi á fíkniefnum til landsins. Rannsókninni var síðar hætt.

Frétt mbl.is: „Varð kjaftstopp og hissa“

Magnús fór fram á 10 milljónir króna í miskabætur. Lögmaður ríkisins fór ekki fram á sýknun heldur að bætur yrðu lækkaðar verulega. Ríkið var ennfremur dæmt til að greiða dráttarvexti. Málsvarnarkostnaður var felldur niður. Magnús sagði í samtali við mbl.is eftir að dómur hafði verið kveðinn upp að hann ætti von á að dómnum yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Málið snerist ekki um peningana heldur væri um grundvallarmál að ræða. Hvort lögreglan gæti komist upp með að brjóta gegn mannréttindum borgaranna án þess að það hefði verulegar afleiðingar í för með sér.

Forsaga málsins er sú að lögreglumaður tilkynnti Magnúsi 21. ágúst 2014 í símtali að lögreglan hefði beitt ýmsum rannsóknarúrræðum í rannsókn sem beinst hefði að honum á sínum tíma. Þar með talið að hlera síma hans, nota eftirfararbúnað í bifreið hans og setja hlustunarbúnað í bifreið sem hann hafði til umráða. Málið snerist um meinta aðkomu Magnúsar að stórfelldum innflutningi á fíkniefnum til landsins. Rannsókninni var að lokum hætt en fylgst var með Magnúsi í þrjú ár.

Frétt mbl.is: Fylgst með honum í tæp þrjú ár

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert