Fjölskyldunni synjað um hæli

Útlendingastofnun synjaði fólkinu um hæli hér á landi.
Útlendingastofnun synjaði fólkinu um hæli hér á landi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Útlendingastofnun hefur synjað fjölskyldu frá Albaníu um hæli hér á landi. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Fjallað hefur verið um fjölskylduna í fjölmiðlum vegna þess að börnin þrjú höfðu ekki fengið skólavist fyrir nokkrum vikum þrátt fyrir að fjölskyldan hefði dvalið hér á landi um tíma. Úr því var síðar bætt.

Í frétt Fréttablaðsins segir fjölskyldan það hafa verið mikið áfall að fá synjun frá Útlendingastofnun í gær. 

„Mér finnst það bara ansi öfugsnúið að á sama tíma og ákveðið hefur verið að taka á móti fleiri kvótaflóttamönnum er verið að senda hælisleitendur til baka - og engin merki um breytta stefnu í þeim málum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, um málið í samtali við mbl.is. „Þetta hef ég lagt áherslu á að við verðum að ræða, bæði Dyflinnarreglugerðina, málsmeðferðartíma og fleira.“

Í synjun frá Útlendingastofnun kemur fram að fjölskyldan sé ekki álitin flóttafólk því hún sé ekki talin í lífshættu í heimalandi sínu og eigi ekki ofsóknir á hættu. Á þeim forsendum er þeim synjað um hæli.

„Við munum áfrýja en okkur er sagt að það sé lítil von fyrir okkur,“ segir móðirin, Aleka. 

Sjá umfjöllun Fréttablaðsins um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert