Ekki svigrúm fyrir svona framgöngu

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is/Styrmir Kári

Ekki var vandað til verks við sölu á hlut Arion banka í Símanum til fjárfestingahóps, sem innihélt meðal annars forstjóra fyrirtækisins. Ljóst er að almenningur kann ekki að meta svona framkomu fjármálafyrirtækja og ekkert svigrúm er fyrir slíkt hér á landi. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í samtali við mbl.is

Ekki svigrúm fyrir svona framgöngu

„Það sem mér finnst skipta öllu er að fjármálafyrirtækin í landinu, ekki síst bankarnir stóru, skynji það umhverfi sem þau starfa í. Fólkið í landinu kann ekki að meta það að upplifa framkomu banka sem felur í sér að fáum útvöldum eru boðin vildarkjör umfram það sem almenningi stendur til boða,“ segir Bjarni. Hann telur slíkt ekki í boði hér á landi. „Bankinn verður að gera sér grein fyrir því að þannig framganga fjármálafyrirtækja er eitthvað sem ekkert svigrúm er fyrir í samfélaginu.“

Bjarni segist ekki ætla að fara að segja bönkunum fyrir verkum, en þeir verði að gera sér grein fyrir því að þeir eiga sjálfir allt undir því að starfa í góðri sátt með samfélaginu. „Það er ljóst að þegar menn bjóða hluti til kaups fáum útvöldum er afskaplega takmarkað gegnsæi,“ segir Bjarni, en bætir við að það sé bankans að svara fyrir hvort starfsreglum bankans var fylgt í málinu.

„Menn verða að vanda sig betur“

Aðspurður hvort bankasýslan hafi átt að aðhafast eitthvað í málinu sem umsjónaraðili með 13% hlut ríkisins í bankanum segir Bjarni þá ekki hafa haft heimild til þess í þessu tilviki. „í sjálfu sér hafa þeir engar formlega stöðu til að færa fram slíkar óskir nema á hluthafafundi eða senda bankastjórn bankans erindi.“

Bankarnir eiga enn talsvert af eignum og eru sumar þeirra í annað hvort í söluferli eða að fara í söluferli. Aðspurður hvernig koma megi í veg fyrir að svipað mál komi upp að nýju segir Bjarni að opið söluferli og gegnsæi sé það sem helst geti komið að gagni. „Ég ætla ekki stjórnendum bankans annað en að vilja starfa í góðri sátt við samfélagið, en menn verða að vanda sig betur en þetta dæmi er til vitnis um“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert