Enginn Albani fengið hæli á Íslandi

Enginn Albani hefur fengið hæli hér á landi enn sem …
Enginn Albani hefur fengið hæli hér á landi enn sem komið er en samkvæmt upplýsingum og skýrslum er Albanía friðsælt lýðræðisríki þar sem hvorki er stríðsástand né ógnarstjórn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þegar fólk leggur fram umsókn um hæli sem er hafnað þá skapar það fólkinu engan sjálfstæðan rétt til dvalar, bara af því að það er komið til landsins,“ segir Skúli Á. Sigurðsson, verkefnisstjóri á hælissviði hjá Útlendingastofnun.

Enginn Albani hefur fengið hæli hér á landi enn sem komið er en samkvæmt upplýsingum og skýrslum er Albanía friðsælt lýðræðisríki þar sem hvorki er stríðsástand né ógnarstjórn.

Skúli segir að hvert mál sé skoðað sérstaklega og reynist aðstæður í einhverjum málum albanskra ríkisborgara kalla á veitingu hælis eða annarrar alþjóðlegrar verndar verði hún að sjálfsögðu veitt viðkomandi fólki eins og lög gera ráð fyrir.

Mál fimm manna fjölskyldu frá Albaníu, hjóna með þrjú börn, hefur vakið nokkra athygli síðustu daga og vikur. Nokkur tími leið áður en börnin fengu skólavist í Reykjavík og fyrir helgi var umsóknum allrar fjölskyldunnar um hæli hafnað.

Frétt mbl.is: Fjölskyldunni synjað um hæli

Búið er að hefja undirskriftasöfnun vegna málsins og boðað hefur verið til meðmælagöngu í Laugarneshverfi á fimmtudagskvöld til að styðja móttöku flóttafólks á Íslandi og bjóða það velkomið til landsins. Þar mun Laura, eitt barna hjónanna, kveða sér hljóðs.

Hvorki stríðsástand né ógnarstjórn

Í nýrri frétt á vef Útlendingastofnunar segir að á undanförnum árum hafi hælisleitendur frá Albaníu verið afar áberandi á Íslandi en fyrirliggjandi upplýsingar og mannréttindaskýrslur séu samhljóða um að Albanía sé friðsælt lýðræðisríki þar sem hvorki er stríðsástand né ógnarstjórn.

Þá segir einnig að mannréttindi séu almennt virt og eftirfylgni við glæpi og afbrot sé góð þrátt fyrir að enn sé umbóta þörf á sumum sviðum. „Albönsk yfirvöld eru fær um að vernda borgara sína og veita þeim aðstoð,“ segir í fréttinni.

Þá segir einnig að flóttamanna- og hæliskerfið sé neyðarkerfi, ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi. Það sem af er þessu ári hefur Útlendingastofnun veitt 55 manns hæli eða aðra alþjóðlega vernd og árið 2014 voru slíkar veitingar 43 talsins. Þarna eru ekki meðtalin útgefin dvalarleyfi til kvótaflóttafólks en slík leyfi skipta tugum.

„Til þess að eiga rétt á alþjóðlegri vernd, því að teljast flóttafólk og eiga rétt á hæli að lögum og samkvæmt alþjóðasáttmálum þarf fólk að vera í einhvers konar hættu og eiga ekki möguleika á viðunandi vernd og úrræðum í heimalandi sínu. Þetta leiðir bæði af flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskum lögum sem sett eru á grundvelli hans,“ segir á vef Útlendingastofnunar.

Hver sem er getur sótt um dvalarleyfi

Aðspurður um hvort fjölskyldan hefði hugsanlega frekar átt að sækja um dvalarleyfi hér á landi í stað hælis tekur Skúli fram að hann geti ekki tjáð sig um einstök mál. Meginreglan sé aftur á móti sú að hver sem er, hvaðan sem er úr heiminum, geti lagt inn umsókn um dvalarleyfi hér á landi. Borgarar frá EES og ESB ríkjum þurfa ekki dvalarleyfi en þurfa að skrá sig hjá Þjóðskrá Íslands.

„Albanía stendur enn sem komið er fyrir utan EES en eru á leið inn í ESB og þar af leiðandi EES-samstarfið. Þau myndu þurfa að leggja inn formlega umsókn um dvalarleyfi og til þess að koma hingað og vinna þyrftu þau að leggja inn umsókn til Vinnumálastofnunar til að fá atvinnuleyfi,“ segir Skúli. Öll dvalarleyfi sem Útlendingastofnun veitir og grundvallast á atvinnu eru háð því að Vinnumálastofnun veiti atvinnuleyfi.

„Þetta veltur á svo mörgu, bæði hvort er nóg af vinnandi fólki í landinu, hvort fólk fær atvinnu- og dvalarleyfi í framhaldinu. Líka hvort um er að ræða sérfræðinga og hvort þörf sé á því að fjölga sérfræðingum í tilteknum stéttum til þess að sinna störfunum hér á landi. Það er mjög háð aðstæðum í hverju máli og þetta er mjög undir Vinnumálastofnun komið,“ segir Skúli.

Allir umsækjendur um dvalarleyfi þurfa að sýna fram á sjálfstæða framfærslu, nema í nokkrum undantekningartilvikum. Útlendingastofnun miðar við lágmarksframfærslustuðul velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, 163.635 kr. á mánuði fyrir einstakling og 245.453 kr. á mánuði fyrir hjón.

Allir verða að fara að lögum

„Aftur á móti þurfum við að gæta jafnræði í þessu, þegar fólk leggur fram umsókn um hæli og er synjað, að það á ekki að skapa því rétt til dvalar, bara af því að það er komið til landsins. Það þurfa allir að fara að lögum þegar fólk vill flytjast til annarra landa,“ segir Skúli.

Bendir hann einnig á að farið sé fram á það þegar sótt er um dvalarleyfi að umsækjandi sé ekki staddur í landinu sem hann vill dvelja í þegar umsókn er lögð fram.

„Í öllum þorra landa heims þarf að sækja um dvalarleyfi til að fá að vera þar lengur en þann tíma sem vegabréfsáritun heimilar og það verður yfirleitt að gerast áður en þú kemur til landsins. Komi fólk til lands og dvelji án þess að hafa til þess leyfi og sæki ekki um dvalarleyfi í samræmi við settar reglur getur fólk átt von á því við slíkar aðstæður að verða snúið aftur til síns heima – að því gefnu að sjálfsögðu að þar sé það öruggt, sem er almennt tilfellið í Albaníu,“ segir Skúli.

Hafa ekki þörf fyrir vernd

Búið er að setja af stað undirskriftasöfnun í von um að fjölskyldan fái að vera áfram hér á landi en hún hefur þegar áfrýjað úrskurði Útlendingastofnunar.

Á Skúli von á að niðurstöðunni verði breytt og verði þar með fjölskyldunni í hag?

„Útlendingastofnun fer að lögum og reglum í sínum störfum. Almenningsálit hverju sinni getur ekki skákað landslögum. Það er einkenni lýðræðisríkja og réttarríkja í heiminum, að þar er farið að lögum og allir sitji við sama borð. Ákvarðanirnar standa því óhaggaðar, í þeim var farið að lögum og í hvívetna gætt að réttindum málsaðila,“ segir Skúli.

„Auðvitað er þungbært þessu fólki, sem hér sækir um hæli, að fara aftur til Albaníu þar sem þau vilja augljóslega ekki vera. Aftur á móti er það svo í þeim málum albanskra ríkisborgara sem búið er að taka ákvörðun í, að umsækjendur hafa ekki þörf fyrir hæli eða alþjóðlega vernd, eða að verndin er sannarlega fyrir hendi í heimalandinu. Því er ekki hægt að ætlast til þess að fólk fái að dvelja hér án þeirra leyfa sem lög gera ráð fyrir vegna þess eins að fólk sé hingað komið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert