Sem hluti af stöðugleikaframlagi mun Glitnir afsala öllu hlutafé ISB Holding ehf., sem er eigandi 95% hlutafjár Íslandsbanka hf., til stjórnvalda. Eigið fé Íslandsbanka nam um 185 milljörðum króna í lok júní 2015. Þetta kemur fram í breyttum tillögum hóps kröfuhafa Glitnis vegna stöðugleikaframlags til ríkisins.
Hópur kröfuhafa Glitnis hf. hefur lagt til breytingar á fyrri tillögu sinni, sem sett var fram með bréfi 8. júní sl., um stöðugleikaframlag Glitnis til ríkisins í tengslum við heildstæða áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kynnt var sama dag. Í bréfi sem barst fjármála- og efnahagsráðherra í dag leggja þessir sömu kröfuhafar Glitnis til að öllum eignarhlut Glitnis í Íslandsbanka verði afsalað til ríkisins, sem muni þá eignast bankann að fullu.
Hinn 8. júní 2015 birti fjármála- og efnahagsráðuneytið tillögur hóps kröfuhafa Glitnis og ráðgjafa hans um aðgerðir til að greiða fyrir lokum slitameðferðar Glitnis. Þessar aðgerðir miðuðu að því að hlutleysa þá áhættu sem steðjaði að greiðslujöfnuði vegna uppgjörs innlendra eigna slitabúsins. Tillögurnar voru settar fram eftir upplýsingafundi kröfuhafanna og framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta. Síðan þær komu fram hefur slitastjórn Glitnis úfært tillögurnar frekar með stuðningi kröfuhafa. Stjórnvöld hafa frá því í sumar haft upphaflegar tillögur til skoðunar, í þeim tilgangi að meta hvort þær uppfylltu stöðugleikaskilyrði stjórnvalda sem kynnt hafa verið.
Ráðgjafar kröfuhafa Glitnis og framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta áttu fundi 25. september til 13. október sl. vegna tillagnanna frá 8. júní. Í framhaldi af þeim fundum hafa sömu kröfuhafar Glitnis kynnt fjármála- og efnahagsráðherra, sem formanni stýrinefndar um losun fjármagnshafta, endurskoðaðar tillögur. Þær breytingar sem í þeim felast eru helstar eftirfarandi:
Framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta telur að þær aðgerðir sem um ræðir í framangreindu bréfi falli að stöðugleikaskilyrðunum sem mótuð voru og að því gefnu að umræddar aðgerðir verði framkvæmdar er það mat framkvæmdahópsins að forsendur fyrir undanþágu frá gjaldeyrishöftum séu fyrir hendi.
Framangreindar aðgerðir eru háðar sömu forsendum og komu fram í tillögum aðila 8. júní 2015, meðal annars um undanþágu frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sem heimila Glitni að ljúka slitameðferð þannig að ekki komi til greiðslu stöðugleikaskatts, að því er segir á vef fjármálaráðuneytisins.