Ríkisstjórnin eins og „útspýtt hundsskinn“

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason mbl.is/Styrmir Kári

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar ræddi á Alþingi dag tillögur kröfuhafa Glitnis að Íslandsbanki færist í hendur ríkisins. Benti Árni á að ríkið axli nú ríkari áhættu af innlendum bankarekstri og að það væri ekki áhættulaus rekstur.

Hann sagði jafnframt að verðmæti þessa hlutar sem um ræði væri óvíst og hættan væri sú að til þess að selja hann góðu verði þurfi að „gefa væntanlegum kaupendum veiðileyfi á íslensk fyrirtæki og íslenskan almenning um ókomna tíð.“

Fyrri frétt mbl.is: Ríkið eignast Íslandsbanka að fullu

„Það er ekkert grín að takast á við það verkefni selja tvo eignarhluti í tveimur bönkum og annan til fulls í ríkisseigu, þegar við blasir að bankakerfið er eins og við vitum öll útblásið og alltof stórt,“ sagði Árni.

„Eftir á síðan að skýra af hverju ríkisstjórn Íslands er eins og útspýtt hundsskinn um allar koppagrundir að elta erlenda kröfuhafa til að hjálpa þeim við að losna við að greiða þann stöðugleikaskatt sem myndi skila almenningi mörg hundruð milljörðum meira en raun ber vitni ef af stöðugleikaframlögunum verður,“ bætti Árni við.

Hann minnti jafnframt á að við upphaf síns ferils hafi ríkisstjórnin lofað frumvarpi um lyklalög sem áttu að gera fólki kleift að losna við skuldir og skila lyklunum. Árni benti á að lítið hafi heyrst af þeim lögum.

„Einu sem fá að gera það erlendir kröfuhafar. Þeir fá að skilja eftir áhættuna í höndum Íslendinga og ríkisins og ganga út með sína peninga,“ sagði Árni að lokum.

Heyrði af tillögunum í útvarpinu

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, gagnrýndi stjórnvöld fyrir skort á samráði hvað varðar tillögur kröfuhafana. Sagði hún frá því að hún hafi fengið boð á samráðsfund í dag um losun hafta. „Síðan kveikti ég á útvarpinu í morgun, eins og kona gerir, og þar var Sigmar Guðmundsson, útvarpsmaður, sem sagði mér það að ég væri að fara á samráðsfund um það að kröfuhafar Glitnis vildu leggja Íslandsbanka inn sem hluta af sínu stöðugleikaframlagi,“ sagði Katrín og bætti við þökkum til Sigmars „fyrir samráðið“.

„Svo sannarlega voru það ekki stjórnvöld sem höfðu samráð þó hér hafi lengi verið kallað eftir fundið í samráðnefndum um losun hafta.“

Hún sagði jafnframt að ríkisstjórnin virtist ófær um að iðka samráð og að yfirleitt finnist þeim ekki ástæða til að halda fundi fyrr en „búið er að koma öllu í fréttir“.

Katrín lagði áherslu á að það þyrfti að tryggja sem opnasta umræðu um málið svo almenningi verði ljóst um hvað verið sé að eiga í þessu máli. Hét hún á alla þingmenn að gefa sér tíma til þess að skoða málið svo tekin verði „upplýst ákvörðun í þágu almennings í landinu.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert