„Ég heyri það á þingmönnum Framsóknarflokksins að farið er að færast fjör í leikinn og krafa þeirra um afnám verðtryggingar eykst,“ sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem sakaði Framsókn um að standa ekki við loforð um afnám verðtryggingar og að varpa ábyrgðinni á Sjálfstæðisflokkinn.
Sigríður vísaði til ummæla sem Karl Garðarsson og Elsa Lára Arnardóttir, þingmenn Framsóknarflokksins, létu falla á Alþingi nú síðdegis að það ætti að afnema verðtrygginguna.
Sigríður sagðist vera ánægð með að beiðni hennar um sérstaka umræðu við forsætisráðherra hefði haft þessi áhrif og hreyft við málinu. Það hefði hins vegar komið fram í máli þingmannanna að verkefnið væri á borði fjármálaráðherra.
„Það sætir furðu að sú skoðun sé hér uppi á borðum. Af hverju sætir það furðu? Jú, því að afnám verðtryggingar var eitt af aðalkosningamálum Framsóknarflokksins. Það er eitt af stefnumálum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar,“ sagði þingmaðurinn.
Hún benti á, að Sigmundur hefði lýst því yfir á heimasíðu ráðuneytisins að ráðherranefnd um úrlausnir skuldamála heimilanna myndi skipa verðtryggingarvakt til að tryggja samfellu í framgangi áætlunar um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum.
„Svo sannarlega er þetta verkefni á hans ábyrgð og það var undirstrikað með skipulagsbreytingum í forsætisráðuneytinu í gær til þess að skýra forustu verkstjórnar og samræmingarhlutverk forsætisráðuneytisins.“
Sigríður sagði tvær skýringar á því hvernig hún ætti að skilja hik forsætisráðherra í málinu.
„Annaðhvort hefur Framsóknarflokkurinn gefist upp á verkefninu og kastað ábyrgðinni yfir á hæstvirtan fjármálaráðherra, sem er jú sjálfstæðismaður, og Sjálfstæðisflokkurinn er á móti afnámi verðtryggingar. Nú, eða kannski er skýringanna að leita í viðtali við hæstvirts fjármálaráðherra sem lýsti því yfir í morgun að hann væri mjög opinn fyrir breyttri skipan ríkisstjórnarinnar. Kannski er það svo að þeir ætli að skipta um sæti, forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann. Kannski er hæstvirtur forsætisráðherra á leiðinni í fjármálaráðuneytið og þá verður áhugavert að fylgjast með því hvort Framsóknarflokkurinn meinar yfir höfuð eitthvað með loforðum sínum.“