Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segist vera hlynnt styttingu vinnuvikunnar en það má þó ekki verða til þess að yfirvinnutími fólks aukist.
Fjórir þingmenn hafa lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, en í því er lagt til að vinnuvikan verði stytt í 35 stundir og vinnudagurinn úr 8 stundum í 7 stundir. Greinagerð frumvarpsins má sjá hér.
„Við erum hinsvegar núna í okkar kjarasamningaviðræðum, í þeim samningum sem við höfum gert við Samtök atvinnulífsins, að fara yfir vinnutímafyrirkomulagsbreytingar með það í huga að vinnumarkaðurinn hér verði fjölskylduvænni. Sú vinna fer vonandi fljótlega í gang en hún er líka háð því að allir félagsmenn sem að þessum samningi koma kjósa síðan um það þegar og ef breytingin verður,“ segir Ólafía í samtali við mbl.is.
Hún segir það mikilvægt að ef að vinnuvikan verði stytt þurfi fólk samt að geta lifað á laununum sínum. „Dagvinnulaunin þurfa að vera ásættanleg og þetta má ekki fara út í það að með styttingu vinnuvikunnar aukist bara yfirvinnutími hjá fólki til að ná endum saman.“
Að mati Ólafíu þarf að ná samkomulagi um styttingu vinnuvikunnar á vinnumarkaðinum. Hún segir að fyrir nokkrum árum hafi VR fengið breytingu á vinnutímastyttingu sem varð til þess að fólk þurfti að vinna meiri yfirvinnu. „Það er ekki lausnin,“ segir hún. „Hugsunin með styttingu á vinnuvikunni er að fólk vinni minna og við styðjum það algerlega og ég held að allir okkar félagsmenn geri það einnig. En það þarf að gerast með þeim hætti að yfirvinnuálagið aukist ekki.“
Hún segir að dagvinnukaup þurfi að vera hærra svo að fólk vinni síður yfirvinnu. „Það er svo merkilegt í okkar þjóðfélagi að við erum með mjög mikið af allskonar álagsgreiðslum, fimm eða sex mismunandi greiðslur fyrir utan hefðbundinn vinnutíma. Í Noregi er 18% álag eftir hefðbundinn vinnudag og þá er ásóknin í að vinna yfirvinnu miklu minni en dagvinnan líka þeim mun hærri.“
Með styttri vinnuviku þarf að huga að því að auka framleiðnina. „En grundvallahugsunin er sú að fólk geti lifað af dagvinnunni.“
Ólafía segir frumvarpið gott innlegg sem veiti VR meiri styrk í að halda áfram í fyrrnefndum breytingum á vinnutímafyrirkomulagi. „En það þarf að sjálfsögðu stjórnvaldsákvörðun til að beita sér fyrir styttingu sem er síðan tekin inn í kjarasamninga. En ég tel þetta mjög gott innlegg.“
Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins það ekki hlutverk löggjafans að breyta einstökum köflum kjarasamninga, t.d. þeim sem fjalla um vinnutíma. Ólafía segir að stytting vinnuviku myndi ekki gerast án samráðs aðila á vinnumarkaðinum.
„Löggjafinn getur alveg beitt sér fyrir styttingu vinnuvikunnar, það er hið besta mál. En við á vinnumarkaðinum þurfum að finna út hvernig við ætlum að leysa þetta. Það er eitt að stytta vinnuvikuna en annað að fólkið okkar geti haf framfærslu af því að vikan sé stytt. Þá má ekki allt hérna fara á fullt í yfirvinnu og að menn í atvinnulífinu séu ekki tilbúnir að taka á móti styttingunni.“