Fyrirtækinu Ice Lagoon ehf. hefur verið bannað að gera út báta með ferðamenn á Jökulsárlóni frá landi jarðarinnar Fells. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm þess að lútandi í gær. Eigandi fyrirtækisins Jökulsárlóns ehf., Einar Björn Einarsson, fór fram á bannið, en fyrirtæki hans hefur verið með ferðaþjónusturekstur á Jökulsárlóni í 15 ár með samning við landeigendur um starfsemina frá því árið 2000. Sagði hann að nýr samningur sem landeigendur gerðu árið 2012 við Ice Lagoon um ferðaþjónusturekstur á svæðinu brytu á réttindum sínum. Féllst héraðsdómur á það.
Einar Björn og félag í hans eigu, Reynivellir ehf., eru eigendur að 24% hlut í jörðinni Felli sem liggur upp að Jökulsárlóni. Allir eigendur jarðarinnar eru svo hluti í Sameigendafélaginu Felli, en það félag gerði samkomulag við Ice Lagoon árið 2012 um nýtingu á jörðinni fyrir ferðaþjónustu og taldi félagið að samningurinn við Einar Björn kæmi ekki í veg fyrir að fleiri kæmu að ferðaþjónustu á staðnum.
Segir í dómnum að ljóst sé að meðal mikilvægustu gæða jarðarinnar séu nýting þess til ferðamennsku á Jökulsárlóni. Að mati dómsins verður því að telja viðvarandi eða langtíma leigu á aðstöðu til slíkrar starfsemi ráðstöfun sem hefur verulega þýðingu um nýtingu jarðarinnar. Þá kemur fram í dómnum að horfa verði til þess að hlutur stefnenda í jörðinni sé ekki smávægilegur og um að ræða ráðstöfun um mikilvæg verðmæti tengd nýtingu jarðarinnar.
Einnig segir í dómnum að óhjákvæmilegt sé að líta til þess að umrædd ráðstöfun var til þess fallin að koma niður á hagsmunum stefnandans Einars Björns með sérstökum hætti vegna þeirrar ferðaþjónustu sem hann rak á jörðinni á grundvelli samnings við aðra sameigendur.
„Að þessu virtu telur dómurinn að til ákvörðunar um gerð áðurlýsts leigusamnings við stefnda Ice Lagoon ehf. hafi einnig þurft samþykki stefnenda. Verður því að leggja til grundvallar að ákvörðun stefnda Sameigendafélags Fells um að veita stjórn félagsins heimild til gerðar samnings við stefnda Ice Lagoon ehf. á aðalfundi 10. maí 2010 hafi verið ólögmæt og gerð samningsins 20. apríl 2012 því ógild,“ segir í dómi héraðsdóms og er því fallist á kröfu Einars Björns.