„Það er náttúrulega frábært að þetta sé komið af stað. Við fögnum því gríðarlega að það sé loksins búið að leggja þetta fyrir, við erum búin að bíða eftir því í mörg ár,“ segir Soffía Fransiska Rafnsdóttir Hede, talskona Staðgöngu, stuðningsfélags staðgöngumæðurnar á Íslandi í samtali mbl.is, aðspurð um frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem heilbrigðisráðherra lagði fram á Alþingi í vikunni.
Hún segir að nú muni máli fara í sitt ferli og að félagið muni að sjálfsögðu leggja fram umsögn til velferðarnefndar en það lagði fram umsögn þegar frumvarpið var í smíðum.
„Í stórum dráttum líst okkur mjög vel á þetta frumvarp og þennan ramma. En það eru náttúrulega hlutir sem við viljum láta athuga,“ segir Soffía og nefnir í því samhengi ákvæði í frumvarpinu um að maki staðgöngumóður yrði faðir barnsins sjálfkrafa. „Ef að staðgöngumóðirin er gift eða í sambúð þá verður maki hennar sjálfkrafa lagalega faðir barnsins. Það er auðvitað mjög eðlilegt að staðgöngumóðirin verði móðir barnsins en við setjum spurningamerki við að makinn verði faðir barnsins því það er algjörlega vitað að hann tengist barninu ekki líffræðilega.“
Að sögn Soffíu hefur staðgöngumóðirin allan rétt yfir sínum líkama og þar með barninu á meðan á meðgöngu stendur. Hún er móðir barnsins við fæðingu og mun fyrst geta afsalað sér foreldraréttinum yfir barninu þegar eru liðnir tveir mánuðir frá fæðingu þess.
Eins og fyrr segir var frumvarpið lagt fram á Alþingi á þriðjudaginn. Þar skiptust þingmenn á skoðunum um staðgöngumæðrun og var m.a. bent á að barneignir teldust ekki mannréttindi.
„Það er auðvitað rétt en þetta er ein af frumþörfum mannsins, að fjölga sér. Á þinginu var líka talað um þetta sem valkost að í staðinn fyrir tæknifrjóvgun. Við vitum ekki um neinn sem velur þetta sem fyrsta val. Það var talað um það að hægt væri að minnka þörfina fyrir staðgöngumæðrun með því að liðka fyrir í tæknifrjóvgunum en það er ekki þannig,“ segir Soffía.
„Þeir sem sækja í staðgöngumæðrun eru yfirleitt þeir sem geta ekki eignast barn með tæknifrjóvgun, t.d. þegar að konan getur eða má ekki ganga með barn. Það er ekkert sem tæknifrjóvgun mun breyta.“
Á þinginu á þriðjudaginn sagði Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, að með staðgöngumæðrun væri verið að tala um að gera kvenlíkamann að verkfæri. Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði jafnframt frumvarpið stórt skref afturábak í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.
Soffía segist ekki vera sammála því. „Við höfum alltaf litið á það sem kvenréttindamál að konur hafi þann rétt að ráða yfir sínum líkama og ráðið hvort þær vilji vera staðgöngumæður eða ekki.“
Hún segir að ekki verði komist hjá því að Íslendingar sæki í staðgöngumæðrun og hafa þeir sótt í hana erlendis frá hingað til.
„Það væri betra ef fólk myndi geta gert þetta hér í öruggum ramma. Aðstæður hér eru mjög góðar vegna fámennis, það eru ekki fleiri fleiri aðilar sem bjóða upp á misvafasama þjónustu eins og í mörgum öðrum löndum,“ segir hún. „Hér yrði þetta í höndum fagfólks sem allir vita hverjir eru og það þekkja allir fagmennskuna. Við erum í mjög góðri aðstöðu til að ryðja brautina.“