Vildu breyta dagskrá þingsins

mbl.is/Styrmir Kári

Þingmenn stjórnarandstöðunnar lögðu fram dagskrártillögu á Alþingi í dag um að tekin yrði á dagskrá sérstök umræða um verðtrygginguna þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sæti fyrir svörum.

Stjórnarandstæðingar gagnrýndu Sigmund harðlega fyrir að vilja ekki taka sérstaka umræðu um verðtrygginguna í ljósi þess að afnám hennar hafi verið sérstakt kosningamál Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar. Forsætisráðherra hafi viljað vísa málinu til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra en stjórnarandstöðuþingmennirnir sögðust ekkert eiga vantalað við hann um málið. Hann hefði ekki lagt áherslu á afnám verðtryggingarinnar fyrir kosningarnar.

Stjórnarliðar vöktu athygli á því að þingmenn hefðu fjölmargar leiðir til þess að ræða mál við ráðherra. Sökuðu þeir stjórnarandstæðinga um málþóf og leikrit. Spurðu þeir hvort stjórnarandstæðingar teldu að slík framganga væri til þess að auka virðingu Alþingis. Bentu þeir ennfremur á að verðtryggingin væri til formlegrar skoðunar í fjármálaráðuneytinu í kjölfar vinnu starfshóps og því væri eðlilegast að beina fyrirspurnum vegna málsins til fjármálaráðherra.

Tillagan var tekin til atkvæðagreiðslu og felld með 32 atkvæðum gegn 24. Sjö þingmenn voru fjarverandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert