Gefi landsmönnum 5% í bönkunum og haldi eftir 40%

Bjarni Benediktsson í pontu við setningu Landsfundar.
Bjarni Benediktsson í pontu við setningu Landsfundar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, velti meðal annars upp þeim möguleika að ríkið afhenti þjóðinni milliliðalaust tiltekinn hluta í bönkum í eigu ríkisins. Hann nefndi 5% hlut í þeim efnum, sem hann sagði að gætu runnið til allra landsmanna. Með því væri eignarhald í bankanum orðið eins dreift og hægt væri á Íslandi, því eigendur bankans yrðu við það um 300.000. Þetta kom fram í setningarræðu hans á 42. landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem hófst í Laugardalshöll í dag.

Hann sagði einnig að hann hefði hugmyndir um að ríkið héldi eftir 40% eignarhlut í Landsbankanum til frambúðar. Um 30% eignarhlutur sem seldur verður í Landsbankanum verður að sögn Bjarna notaður til að greiða niður skuldir ríkisins. „Mín sýn til lengri tíma er sú að Landsbankinn verði skráður á markað þar sem ríkið verði stærsti eigandinn með um 40% hlut. Það er þekkt fyrirkomulag, til dæmis annars staðar á Norðurlöndum, og ég sé það vel geta gengið hér eins og þar,“ sagði Bjarni. Komi hins vegar til þess að Íslandsbanki lendi hjá ríkinu verða næstu skref skoðuð vel og ákveðið hvort hann verði seldur nýjum eigendum. Hann sagði þó ekki lögmál sem segði að ríkið gæti ekki átt banka til lengri tíma, en minnti á að bankarekstur er ekki áhættulaus rekstur.

„Ykkur er eflaust kunnugt um að það er komin fram tillaga um að eignarhald Íslandsbanka færist til ríkisins. Við munum sjá hvernig því vindur fram. En það er einnig mikilvægt að heilbrigðara eignarhald fáist fyrir Arion banka sem allra fyrst,“ sagði Bjarni í setningarræðu sinni.

„Það er engin framtíðarsýn fyrir heilbrigða fjármálastarfsemi í landinu að ríkið sé allsráðandi á þessum markaði, ekki frekar en öðrum. En við erum auðvitað ekkert betur stödd með óhæfa eigendur sem leita í skammtímagróða og skeyta ekki um samfélagslega ábyrgð. Auðvitað værum við ekki betur stödd í þeim sporum,“ sagði Bjarni. Þess vegna verði ekki farið fram í óðagoti.

„Mér finnst höfuðmáli skipta að eignaraðildin verði, þegar upp er staðið, dreifð. Einföld leið til að ná því markmiði og styðja við skráningu bankans væri að gera alla landsmenn að milliliðalausum eigendum í bönkunum,“ sagði Bjarni og uppskar lófaklapp landsfundargesta. „Ég er að tala um að ríkið einfaldlega taki tiltekinn hlut, 5%, og einfaldlega afhendi hann landsmönnum. Með því væru komnir um 300.000 hluthafa í bankana og á Íslandi verður eignaraðildin ekki mikið dreifðari.“

Frá landsfundi.
Frá landsfundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert