Landsfundur helgaður konum

Bjarni Benediktsson setti landsfund.
Bjarni Benediktsson setti landsfund. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er í ár helgaður konum í tilefni af aldarafmæli kosningaréttar kvenna. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagði í setningarræðu sinni í dag að það væri mikið fagnaðarefni hve hátt hlutfall landsfundargesta væri konur - það hæsta frá upphafi.

„Fundurinn er að þessu sinni sérstaklega tileinkaður konum, á þessu 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna,“ sagði Bjarni. „Það gleður mig því að geta sagt frá því að aldrei fyrr hefur jafnhátt hlutfall landsfundarfulltrúa verið kvenkyns. Hér eru um það bil fjórar konur á móti hverjum sex körlum, en ekki þrjátíu prósent eins og við höfum oft átt að venjast. Og ég horfi björtum augum til framtíðarinnar, því í aldurshópnum 15-49 er hlutfallið enn betra,“ sagði Bjarni, um 45% konur og 55% karlar.

„Og aldursbilið er breitt í okkar stóra hópi hér á landsfundi,“ sagði hann í ræðu sinni. „Þið munið eftir honum Friðriki Jónssyni úr Kópavogi. Hann er hér með okkur á nítugasta og fimmta ári en hann hefur verið virkur félagi síðan á fjórða áratug síðustu aldar. Friðrik er elstur karla.“

 „Og hér er líka Salóme Þorkelsdóttir sem ber með miklum glæsibrag hæstan aldur allra kvenna á landsfundi. Ég vil einnig minnast á fulltrúa yngstu kynslóðarinnar, sem sitja nú sinn fyrsta landsfund. Akureyringurinn Melkorka Ýrr Yrsudóttir, er 17 ára, en hún er yngsti fulltrúi kvenna og yngstur karla er Dagur Ágústsson, frá Hellu sem er sextán ára frá því í júní.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka