„Ég held að Vinstrihreyfingin - grænt framboð muni þurfa að leika sögulegt hlutverk á nýjan leik þegar umbreytingar verða í stjórnmálunum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður og fyrrverandi formaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is, en landsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs fer nú fram á Selfossi.
Fylgi Vinstri grænna mælist nú, samkvæmt nýjustu könnun MMR, 11,8% borið saman við 8,3% í síðustu könnun. Steingrímur segir flokkinn hafa haldið vel sjó að undanförnu og í „nokkuð góðum færum til þess að fara að sækja í sig veðrið.“
„Við erum með vinsælasta og glæsilegasta formann íslenskra stjórnmála í dag - það sýna allar mælingar og erum við vel meðvituð um það sjálf,“ segir Steingrímur og bætir við að nú séu uppi ýmis merki þess að almenningur í landinu vilji sjá breytingar er kemur að stjórnmálum á Íslandi. Fólk vilji nú, að sögn Steingríms, sjá auknar áherslur á jöfnuð í anda félagshyggju.
„Það kraumar undir í þessum kjaraviðræðum og maður skynjar það á andrúmsloftinu í samfélaginu að það er þung samfélagsleg undiralda,“ segir Steingrímur.
Spurður hvort hann telji flokk sinn eiga góða samleið með Pírötum, sem nú mælast með 34,7% fylgi, kveður Steingrímur já við.
„Það er ýmislegt keimlíkt í þeirra áherslum og okkar. Við höfum yfirleitt haft talsvert góðan stuðning meðal ungs fólks og höfum enn - öfugt við suma aðra flokka sem samkvæmt mælingum byggja stuðning sinn fyrst og fremst á eldri kynslóðum. Við höfum hins vegar verið nokkuð jafn dreifð,“ segir Steingrímur og bætir við að vinstri vængur stjórnmála á Íslandi þurfi hins vegar að ná betur vopnum sínum.
„Jarðvegurinn er frjór núna, eins og við sjáum, og stjórnarflokkarnir hafa verið ótrúlega lagnir við að reita af sér stuðning. Og eru komnir jafn neðarlega - eða jafnvel enn neðar en ríkisstjórn okkar Jóhönnu nokkurn tímann fór,“ segir hann.
Fyrri frétt mbl.is: