Tveir Íslendingar eru í haldi lögreglu í tengslum við rán í skartgripaversluninni Gullsmiðjunni í Lækjargötu í Hafnarfirði síðdegis í gær.
Of snemmt er að segja til um hvort báðir þeirra hafi komið að ráninu með beinum hætti en ljóst er að annar þeirra ógnaði starfsmanni í versluninni í gær og skaut að sérsveitarmönnum með öflugri gasbyssu í Keflavík í gærkvöldi. Tjónið hleypur á milljónum í minnsta lagi.
Tveir grímuklæddir menn ógnuðu starfsmanni verslunarinnar með bareflum og hnífum. Höfðu mennirnir á brott með sér töluverð verðmæti, þar af stóran hluta af skartgripum sem ætlaðir voru í sölu fyrir jólin.
Því næst flúðu þeir af vettvangi á hvítum jepplingi sem reyndist vera stolinn og á röngum skráningarmerkjum. Mennirnir óku á ofsahraða, meðal annars á móti umferð og var bílnum meðal annars ekið utan í annan bíl. Fannst jepplingurinn við afleggjarann til Grindavíkur seinna um daginn.
Að sögn lögreglu ber málið þess merki að vera vel skipulegt og má þar sem dæmi nefna stolnu bifreiðarnar sem notaðar voru við ránið. Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir öðrum manninum, þ.e. þeim sem var handtekinn í Keflavík í gærkvöldi.
Að sögn Bjarna Ólafs Magnússonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var seinni maðurinn handtekinn í dag. Ekki liggur fyrir hvort hann er annar mannanna sem frömdu ránið og er enn verið að rannsaka aðild hans að málinu. Enn er verið að kanna hvort fleiri hafi komið að ráninu með einhverjum hætti. Málið er á viðkvæmu stigi og er maðurinn í haldi til upplýsingaöflunar.
Framundan eru húsleitir og mikil tæknivinna, meðal annars á skotvopninu. mbl.is greindi frá því í gærkvöldi að einn hefði verið handtekinn grunaður um að hafa átt þátt í málinu. Í upplýsingum frá lögreglu á Suðurnesjum kom fram að maðurinn hefði skotið að lögreglu með loftbyssu.
Bjarni Ólafur segir málið alvarlegra en það kunni að hafa hljómað, að um öfluga gasbyssu hafi verið að ræða og að atvik gærkvöldsins sé tekið mjög alvarlega. Byssan er með málmbikurum sem geta valdið miklum skaða ef skotið er ef henni af stuttu færi líkt og í gærkvöldi.
„Þarna er maðurinn að beina skotvotpi af tveggja til þriggja metra færi og skýtur ítrekað að lögreglumönnum sem eru að reyna að yfirbuga viðkomandi, sem þeir síðan gera,“ segir Bjarni Ólafur en um sérsveitarmenn var að ræða.
„Þetta eru mjög erfið mál, þarna þurfa lögreglumenn að taka ákvörðun á sekúndubroti. Það má segja að það sé mjög mikil mildi að þeir hafi haft reynslu og þekkingu og allt sem liggur að baki sérhæfingu þeirra sem sérsveitarmenn til að taka rétta ákvörðun.“
Sérsveitarmennirnir sáu ekki aðeins á vopninu að það var öflugt, heldur greindu þeir það líka á hljóðunum sem bárust þegar maðurinn hleypti ítrekað af. „Menn voru ekki með hjálma og voru andlitin því óvarin. Af tveggja til fjögurra metra færi getur þetta verið lífshættulegt verkfæri,“ segir Bjarni Ólafur.
Þá stafaði almenningi einnig töluverð hætta af mönnunum þegar þeir óku í burtu af vettvangi á ofsahraða. „Þeir óku á móti umferð og inn í bifreið á miklum hraða. Það er ótrúlegt að ekki hafi orðið mikið líkams- eða eignatjón,“ segir Bjarni Ólafur.
Vinnur lögregla nú að því að kortleggja leiðina sem mennirnir fóru, þ.e. frá því að ránið var framið, þar til árekstur verður og síðan þar til flóttabifreiðin fannst á afleggjaranum á leiðinni til Grindavíkur seinna um daginn.
Bjarni Ólafur segir að fyrri maðurinn sem var handtekinn hafi fundist eftir rannsóknarvinnu. Verðmætin sem stolið var eru ófundin og skiptir tjónið milljónum í hið minnsta. „Þetta eru það margir óvissuþættir ennþá að við vinnum þetta skref fyrir skref. Það er mikil tæknivinna frmaundan. Við erum með vísbendingar, við erum með ákveðnar hugmyndir sem við erum að vinna út frá.“
„Þetta er á góðri leið en þetta er mannaflafrekt og flókið. Aðrar stoðdeildir koma að málinu, bæði tækni – og tölvurannsóknardeild og aðrir sem vinna úr gögnunum,“ segir Bjarni Ólafur.