„Ekki þolinmæði fyrir vinahygli“

Forystumenn flokksins svöruðu fyrirspurnum landsfundargesta í dag.
Forystumenn flokksins svöruðu fyrirspurnum landsfundargesta í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst vera gríðarlega mikill tvískinnungur í því máli,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um áfengisumræðuna í fyrirspurnartíma á landsfundi flokksins í morgun. 

„Fólk segir að þetta snúist um að takmarka aðgengi að áfengi. Að það hljóti að vera endanlegt takmark,“ sagði Bjarni og bætti við að þeir sömu andmæltu þó ekki stækkun, fjölgun og lengri opnunartíma verslana ÁTVR. „Hvernig takmarkar það aðgengi að sýslumenn skuli stimpla fleiri og fleiri vínveitingarleyfi fyrir gististaði, veitingastaði, kaffihús og skemmtistaði?“ sagði hann og spurði hvort einhverjir hefðu áhyggjur af því.

„ÁTVR er bara eitthvað fyrirbæri úr fortíðinni sem mér þætti ágætt að skilja við,“ sagði Bjarni og bætti við að fyrir honum snerist málið aðallega um að það eigi ekki að þurfa opinbera starfsmenn til þess að afhenda vöruna.

„Ég læt ekki segja mér það, þegar ég tala svona, að ég hafi ekki skilning á því að margir eigi um sárt að binda vegna áfengisvandans,“ sagði hann.

„Ég á góða vini sem hafa haft þann djöful að draga að glíma við þann vanda. Ég mun áfram styðja við öflugt forvarnarstarf. Ég mun áfram styðja hindranir á aðgengi og takmarkanir á ýmsum sviðum sem snerta þessa vöru. Það eru háar álögur á henni og hún þarf sérstaka löggjöf. En hitt breytir því ekki, að mér finnst það gamaldags hugmyndafræði, að það þurfi að afgreiða þetta í sífellt stærri verslunum ÁTVR með lengri opnunartíma.“

Ekki þolinmæði fyrir þessu

Löng röð myndaðist í fyrirspurnartíma á landsfundinum og sneru spurningarnar að fjölmörgum málefnum. Einn fundargestur spurði m.a. hvenær flokkurinn ætlaði að hætta að „skora sjálfsmörk“ og vísaði til nýlegrar ráðningar Harðar Þórhallssonar til nýstofnaðrar Stjórnstöðvar ferðamála.

 „Það er ekki þolinmæði fyrir því í þjóðfélaginu að við séum að vinna svona, að það séu ekki tækifæri fyrir alla að sækja um. Það er ekki þolinmæði fyrir því að við séum að kalla fólk til starfa, sem er okkur tengt, í alls konar vinnu og alls konar fyrirtækjum, án þess að öllum sé boðið að taka þátt. Það er ekki þolinmæði fyrir vinahygli og því að við horfum ekki á breiðu myndina og leyfum öllum að taka þátt,“ sagði fundargestur.

Starfið auglýst eftir 6 mánuði

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, svaraði þessu og sagði það eflaust verða niðurstöðuna að starfið yrði auglýst aftur eftir sex mánuði, en samningur Harðar er einungis til sex mánaða. 

Hún sagði að málið hafi þurft að hugsa öðruvísi og vísaði til þess að ferðaþjónustan hefði marga snertifleti. „Stjórnstöðin er ekki stofnun. Stjórnstöðin er ekki nýtt bákn. Þvert á móti,“ sagði hún og bætti við að hlutverk hennar væri að endurskoða stoðkerfið, eða skrímslamyndina, eins og hún kallaði það. 

„Þess vegna var ákveðið að ráða framkvæmdastjóra til sex mánaða. Síðan er það Stjórnstöðvarinnar að ákveða framhaldið á því og eflaust verður það niðurstaðan að starfið til þessara fimm ára verði auglýst og þá gefst öllum tækifæri til að sækja um það,“ sagði hún og vísaði til þess að mikil áhersla hefði verið lögð á að hefja starfið strax. Því hefði verið staðið að ráðningunni með þessum hætti.

Sjúklingar - ekki glæpamenn

Aðrar fyrirspurnir sneru m.a. að viðbrögðum flokksins við tillögum Ungra sjálfstæðismanna og spurði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrum formaður Heimdallar, hvort unga fólkið væri aðeins skraut á landsfundinum, til þess að flokkurinn liti betur út, eða hvort til stæði að hlusta á tillögur þeirra.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, gerði eina tillögu Ungra sjálfstæðismanna að umtalsefni, þ.e. um afnám refsistefnu í fíkniefnamálum og sagðist m.a. líta svo á að fíklar væru sjúklingar en ekki glæpamenn.

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, svaraði einnig fyrir þetta og sagði að spyrja þyrfti ýmissa spurninga, s.s. hvort refsingar séu að ná markmiði sínu. Hún sagði umræðuna vera brýna og að mikilvægt væri að halda henni á lofti.

Bjarni Benediktsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ragnheiður Elín Árnadóttir í fyrirspurnartíma á landsfundinum í morgun.
Ragnheiður Elín Árnadóttir í fyrirspurnartíma á landsfundinum í morgun.
Frá setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Frá setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert