Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki vera á leiðinni úr stjórnmálum og hyggst vera áfram í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Hún segist ekki hafa farið í varaformannsslag til þess að hlífa tilfinningum sinna nánustu og halda athyglinni á málefnum landsfundarins.
Þetta kom fram í skýrslu hennar á 42. fundi flokksins sem fer fram í Laugardalshöll um helgina.
Hönnu Birnu varð tíðrætt um þakklæti til Sjálfstæðisflokksins og sagðist vera stolt af því að vera hluti af einvala liði. Hún fór yfir stefnumál síðasta landsfundar og sagði flokkinn hafa náð miklum árangri. „Það er samt svo stutt síðan hugmyndir okkar um betra samfélag voru í besta falli fjarlægur draumur dugmikillar þjóðar. Þjóðar sem alltof lengi hafði búið við þá martröð sem úrræðalaus, úrill og örmagna vinstristjórn bauð uppá. En okkur tókst að snúa vörn Íslands í stórsókn.“
Hún sagði öllu máli skipta að vera í liðinu sem spilar slíka stórsókn, tilheyra hópnum og tilheyra heildinni til að ná árangri fyrir fólkið í landinu. „Í því samhengi, kæru vinir, skipta vonir og væntingar einstakra forystumanna afar litlu. En pólitísk vonbrigði þeirra og tilfinning fyrir því að hafa órétti beittir skiptir enn minna máli. Og engu máli. Engu máli í sögulegu samhengi okkar hugsjóna og hugmynda,“ sagði Hanna Birna.
„Slík uppgjör verða einfaldlega að bíða minningarbóka, nú eða minningarmynda, á efri árum. En minnið mig þá á það kæru vinir, að titlarnir Ár drekans, Frá hruni og heim og Síðasta orrustan, hafa allir þegar verið notaðir.“
Hanna Birna sagði það hvorki hafa verið einfalda né auðvelda ákvörðun að gefa ekki aftur kost á sér til embættis varaformanns. Hún sagði fyrra framboðið hafa verið sitt persónulega svar við spurningunni: „Hvað get ég gert?“
Hún sagði að hugmyndir sínar um betri stjórnmál ættu síst minna erindi nú en áður, um að ákveðin breidd í forystu flokksins væri mikilvæg og að konur mættu ekki enn sem áður hörfa þegar móti blési.
„Stundum er það svo, kæru vinir, að kaldir vindar hafa blásið svo lengi að jafnvel þær sem þykja extra harðgerar hægrikonur, og eru jafnvel kallaðar ísdrottningar þegar þannig liggur á mönnum, velja að stíga til hliðar.“
Hún sagði ákvörðun sína ekki hafa neitt að gera með óbilandi trú sína á hugsjónum flokksins. „Hún hefur heldur ekkert að gera með þá miklu ástríðu sem ég hef fyrir verkefnunum framundan og heldur ekkert að gera með pólitísk áform mín til lengri eða skemmri tíma. Ég er fyrsti þingmaður Reykvíkinga. Ég verð áfram í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ég vera í draumastarfinu og það eru engar dramatískar breytingar í undirbúningi,“ sagði Hanna Birna og bætti við að hún vonaðist til þess að þetta myndi ekki hryggja skýrendur í málefnum flokksins.
„Trúið mér, ég er í stjórnmálum, ætla að starfa þar áfram og verð á þeim vettvangi áfram,“ sagði Hanna Birna og uppskar lófatak landsfundargesta.