Frekari olíuvinnsla tímaskekkja

Frá landsfundi Vinstri grænna.
Frá landsfundi Vinstri grænna. Sunnlenska/Guðmundur Karl

Vinstri græn lýsa sig andsnúin fyrirhugaðri olíuvinnslu á Drekasvæðinu í ályktun sem samþykkt var á landsfundi þeirra í dag. Stofnun opinbers húsnæðisfélags og auðlindasjóðs að norskri fyrirmynd og að hætt verði að endursenda fólk á grundvelli Dyflinnarsáttmálans eru á meðal þeirra ályktana sem voru samþykktar.

Landsfundinum sem haldinn var á Selfossi lauk í dag með samþykkt fjölda ályktana um ýmis mál. Þegar hefur vakið nokkra athygli ályktun flokksins um að slíta skuli stjórnmálasambandi við Ísrael og setja viðskiptabann á vörur þaðan þar sem að „þjóðarmorð“ Ísraelsríkis á Palestínumönnum verði ekki stöðvað með aðgerðaleysi.

Af öðrum ályktunum ber einna helst að flokkurinn leggst nú gegn hugmyndum um vinnslu jarðefnaeldsneytis á íslensku yfirráðasvæði, þar á meðal fyrirhugaðri olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Í ályktuninni segir að frekari olíuvinnsla sé tímaskekkja nú þegar aldrei hafi verið meiri þörf á að sporna við hlýnun jarðar.

„Aukin olíuvinnslan vinnur gegn þeirri þróun að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og væri því mikil afturför, einkum og sér í lagi þegar umhverfisvænni orkugjafar eru í mikilli sókn og tækniþróun leiðir til minni þarfar fyrir orku. Það eru táknræn og fordæmisgefandi skilaboð til alþjóðasamfélagsins ef Ísland kysi að nýta ekki mögulegar olíu- og/eða gaslindir í lögsögu sinni,“ segir í ályktuninni en Vinstri græn vilja að Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir árið 2050.

Í þessu samhengi ályktar fundurinn jafnframt að settar verði upp hleðslustöðvar fyrir raf- og metanbíla með reglulegu millibili um landsbyggðina.

Siðferðislega rangt að skýla sér á bak við Dyflinnarsáttmálann

Frammistaða ríkisstjórnarinnar í málefnum flóttamanna er gagnrýnd harðlega í ályktun landsfundar VG sem fagnar þó viljayfirlýsingu yfir tuttugu sveitarfélaga um að taka við fleira flóttafólki.

Breyta þurfi útlendingalögum til að þau uppfylli mannréttindasáttmála sem Ísland hafi fullgilt og að þau einkennist af mannúð og virðingu fyrir mannlegri reisn. Vilja Vinstri græn að hætt verði að senda fólk frá landi á grundvelli Dyflinnarsáttmálans. Siðferðislega rangt sé að skýla sér á bak við hann og síst til þess fallið að bæta vandann hnattrænt.

„Þá er það fyrir neðan allar hellur að á tímum batnandi þjóðarhags eigi framlög til þróunarsamvinnu samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að standa í stað og að ríkisstjórnin hyggist ekki einu sinni standa við sín eigin metnaðarlausu áform í þeim efnum,“ segir í ályktuninni.

Hommar fái að gefa blóð

Flokksmenn leggja áherslu á að vinnu við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið til að þjóðin eignist framsækna stjórnarskrá og ítreka mikilvægi þess að ráðist verði í þær breytingar á þessu kjörtímabili.

Um húsnæðismál segir í ályktun VG að stofnað verði opinbert leigu- og kaupleigufélag til að koma til móts við fólk á „klikkuðum húsnæðismarkaði sem hin[n] „frjálsi markaður“ býður nú upp á“.

Þá vill landsfundurinn að stofnaður verði auðlindasjóður að norskri fyrirmynd sem í renni arður af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Af öðrum ályktunum má nefna að flokksmenn lýsa sig andvíga hvalveiðum og sameiningu framhaldsskóla. Þá er mælst til þess að samkynhneigðir karlmenn fái að gefa blóð eins og aðrir og að ríkið leggi meira fé í innviðir samgangna og fjarskipta.

Hér má lesa ályktanir landsfundar Vinstri grænna í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka