Starfabani og efnahagsleg bremsa

Emmanuel Macron fékk það hlutverk frá Francois Hollande forseta, að …
Emmanuel Macron fékk það hlutverk frá Francois Hollande forseta, að knýja fram efnahagslegar umbætur og aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði. mbl.is/afp

Fyrir tæplega 500 árum setti heimsspekingurinn Thomas More fram hugmyndina um 36 stunda vinnuviku í markverðu riti sínu Utopia, sem út kom árið 1516. Sósíalistaflokkurinn franski gekk lengra og vildi 35 stunda vinnuviku. Það varð að lögum árið 2000 og var hugmyndin að fjölga starfandi fólki um 700.000 manns. Það varð ekki að veruleika og nú sætir vinnumálalöggjöfin meðal annars harðri gagnrýni úr röðum sósíalista sjálfra.

Frakkar eru frægir fyrir stutta vinnuviku - 35 stunda - en þrátt fyrir það lifa þeir engu letilífi með tveggja stunda hádegisverðahléi og kaffisötri í tíma og ótíma, eins og margir norðar í álfunni halda. Staðreyndir er sú, að einungis  lítið brot launþega vinnur svo stutta viku, 35 stunda. Öðru hverju blossa upp tilfinningaþrungnar deilur um frönsku vinnumálalöggjöfina. Efnahagsráðherrann Emmanuel Macron í stjórn sósíalista hleypti til að mynda öllu í bál og brand - ekki síst á vinstri vængnum - er hann sagði í ágústlok í ræðu á ársfundi samtaka atvinnulífsins (Medef) að sósíalistar hefðu haft rangt fyrir sér með því að halda að lífsgæði myndu aukast með því að vinna minna. „Það var villa vinstrimanna að halda að Frakkland yrði efnahagslega öflugara með því að fækka vinnustundunum. Það voru villuboð,“ sagði þessi fyrrverandi efnahagsráðgjafi Francois Hollande forseta sem munstraður var ráðherra við brottför stól er vinstri óróa- og uppreisnarseggurinn Arnaud Montebourg var látinn taka pokann fyrir rúmu ári. Fékk Macron það hlutverk að knýja fram efnahagslegar umbætur og aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði. Ræðunni frægu hjá atvinnurekendum lauk hann á þeim orðum, að fólk þyrfti ætti ekki að spyrja hvað land þeirra gæti gert fyrir það, heldur hvað það sjálft gæti gert í þágu efnahagslífs landsins.

Lögin sett á góðæristíma

Macron hafði talað í svipuðum tón ári fyrr í viðtali við tímaritið Le Point, áður en hann varð ráðherra. Þá sagði hann starfsréttindi franskra launþega vera hindrun á möguleika atvinnulausra. Leyfa ætti fyrirtækjum að brjótast út úr lagarammanum væri meirihluti starfsmanna þeirra því samþykkur. Heimild til þess var að finna í löggjöf frá 2008 sem ett voru fyrir tilstuðlan Nicolas Sarkozy þáverandi forseta.

Lögin um 35 stunda vinnuviku voru sett á góðæristíma í febrúar 2000 en þá var við völd vinstristjórn undir forystu Lionels Jospin,  í forsetatíð hægrimannsins Jacques Chirac. Hafði styttingin verið meðal kosningaloforða Francois Mitterand fyrir forsetakosningarnar 1981 sem hann vann. Stuðningsmenn Jospins veltu sér upp úr því sem þeir kölluðu mannlega efnahagsstefnu. Andstæðingar hans innan sem utan Frakklands hafa hins vegar sagt lögin ósveigjanleg og hamlandi og haldið því áfram allt til þessa dags að stimpla lögin sem starfabana og efnahagslega bremsu.

Vinstri menn töldu að stytting vinnuvikunnar yrði til góðs fyrir framleiðni. Sósíalistar sögðu lögin fela í sér aukin réttindi og myndu leiða  til nýrra starfa með því að vinnan dreifðist á fleiri hendur en áður. Það gekk ekki eftir. Andstæðingar lagasetningarinnar sögðu hana aftur á móti til marks um samfélagslega afturför og lögin yrðu líklega til þess að letja fyrirtæki til frekari mannaráðninga. Hafa þeir reynst sannspáir.  



Ná til innan við helmings launþega

Þótt grundvöllurinn sé 35 stunda vinnuvika, eða 1.607 stundir á ári er sveigjanleiki í lögunum. Yfirvinna er þannig möguleg en þeim skilyrðum háð, að vinnudagurinn megi að hámarki vera 10 stunda langur og vinnuvikan ekki lengri en 48 stundir. Eitt ákvæði hljómar reyndar upp á að vikan geti verið allt að 60 stundir við „óvenjulegar kringumstæður“. Með því skilyrði þó að á 12 vikna tímabili verði meðalvika þessa fólks ekki lengri en 44 stundir. Loks er kveðið á um að launþegar skuli fá að minnsta kosti 20 mínútna pásu á hverjum sex vinnustundum og 11 stunda óslitna hvíld á dag.  Styttri hvíldir gilda um launþega undir 18 ára aldri en þeir mega ekki - nema gegn alveg sérstakri undanþágu - vinna meira en 35 stundir á viku.

Lögin ná til einkageirans og hluta opinbera geirans en sumstaðar er kveðið á um lengri viku, til dæmis  vegna dauðra tíma á vinnudeginum vegna lítillar athafnasemi. Á það til að mynda við um grænmetissala, svo dæmi sé tekið. Fjöldi undantekninga í lögunum gerir í raun að verkum, að 35 stunda ákvæðið á aðeins við um rétt innan við helming franskra launþega.

Vissir hópar eru undanþegnir lögunum um 35 stunda vinnuviku. Þar á meðal dagmömmur og fólk sem stundar atvinnu innan veggja heimilisins. Þau eiga heldur ekki við um æðstu stjórnendur fyrirtækja og stofnana. Eru þeir skilgreindir sem fólk sem hefur mikið frelsi til að ákveða vinnutíma sinn og eru meðal launahæstu starfsmanna fyrirtækja. Þeir gætu átt rétt á launum í orlofi, eins og annað starfsfólk, en ekkert þak er sett á vinnutíma þeirra; engin ákvæði um lágmarkshvíld eiga við um þá og engin skylda hvílir á þeim um að virða almenna frídaga.

Nicolas Sarkozy.
Nicolas Sarkozy. AFP



Skattfrjáls yfirvinna

Fyrirtæki og stofnanir geta kosið að láta starfsmenn sína vinna einungis 35 stundir. Allt umfram geta starfsmenn tekið út sem yfirvinnu á hærra kaupi eða í formi aukafrídaga eða styttingu vinnudags. Í t.d. heilbrigðisgeiranum hafa slík réttindi safnast upp og valdið stofnunum vandræðum.

Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, hefur látið til sín taka undanfarið í umræðunni um 35 stunda vinnuvikuna. Hann lét ógert að hrófla við lögunum í forsetatíð sinni en umbunaði þeim sem unnu meira með því að gera yfirvinnuna skattfrjálsa. Leið ekki langur tími frá kjöri Hollande er skattfrelsið var afnumið við litlar vinsældir milljóna launþega sem notið höfðu sér það.

Sarkozy er á því nú, að atvinnufyrirtækin eigi sjálf að fá að ráða vinnutíma starfsfólks síns. Í samtali við viðskiptablaðið Les Echos sagði hann þau ættu að ráða því hvort þau héldu í 35 stundirnar eða vörpuðu þeim reglum fyrir róða, með sjálfstæðum fyrirtækjasamningum eða með einfaldri atkvæðagreiðslu starfsmanna þeirra. Forsetinn fyrrverandi sagði franskt efnahagslíf í „kyrkingaról“ af völdum allra ákvarðana sem teknar hefðu verið í tíð arftaka hans, frá 2012.  Mælir Sarkozy nú fyrir enn rýmri vinnumálalöggjöf en ákvarðanir hans á forsetastóli gátu af sér. „Ég held Frakkar skilji betur nú hvað er í húfi því þeim hrýs hugur við efnahagslegu blindgötunni sem landið er statt í núna,“ sagði hann.

AFP



Umræðan blossar upp við og við

Umræðan um afnám 35 stunda vinnuvikunnar blossar upp við og við. Sjónarmiðin eru mörg og ólík, en óhætt er að segja, að Frakkar séu klofnir í afstöðunni til laganna. Í rannsókn greiningafyrirtækisins Viavoice í byrjun október sögðust 52% landsmanna vilja halda í hana. Í sambærilegri skoðanakönnun CSA-fyrirtækisins nokkrum dögum seinna lýstu 71% aðspurðra sig fylgjandi hugmynd Sarkozy og sögðu fyrirtækin og starfsmenn þeirra ættu ein að ákveða vikulegan vinnustundafjölda sinn.  Þá sögðust 86% rúmlega 26.000 þátttakenda í könnun blaðsins Le Figaro vilja lögin upprætt. Sumir vilja reyndar herða á lögunum og stytta vinnuvikuna enn frekar. Vinstriflokkurinn Nouvelle Donne (Nýr veruleiki) vill til að mynda stytta hana í 32 stundir sem inntar séu af hendi á fjórum átta stunda vinnudögum. Þvert á alla reynslu af styttingu vinnuvikunnar segir flokkurinn það „bestu leiðina til að vinna á átvinnuleysinu og ójöfnuði“.

Í allt aðra átt stefnir álit hugveitunnar CREST sem sérhæfir sig í umfjöllun um efnahagsmál. Forstjóri hennar, Francis Kramarz, sagði að afturhvarf til 39 stunda vinnuviku - með sömu launum og fyrir 35 stunda viku - myndi virka sem stærðar vítamínssprauta fyrir framleiðni og veita mörgum fyrirtækjum í erfiðleikum tækifæri til nýs og betra lífs. Önnur hugveita,  Institut Montaigne, mælir með að fyrirtækjum verði leyft að fjölga vinnustundunum í 40 á viku og starfsfólki verði umbunað með því að njóta skattfrelsis fyrir unnar stundir umfram 35.

En þrátt fyrir allt og hin rúmlega 15 ára gömlu vinnulöggjöf um 35 stunda vinnuviku reyndin sú, að meðal vinnuvika franskra launþega er 39,5 stundir í dag. Til samanburðar mun meðalvikan á svæði Evrópusambandsins vera 40,3 stundir. Meir að segja iðnverkamenn vinna meira en lögin kveða á um. Franska hagstofan segir, að 50% iðnaðar- og verksmiðjufólks hafi unnið launaða yfirvinnu árið 2010 - og að hlutfallið hafi verið hærra 2013. Margir njóta stuttrar vinnuviku en það verður ekki sagt um allar starfsstéttir. Samkvæmt upplýsingum frá frönsku lögmannasamtökunum (CNB) var vinnuvika 44% lögmanna umfram 55 stundir 2008 og hefur líklega lengst síðan.

Fréttir mbl.is um þingtillögu um styttingu vinnuvikunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert