Svívirðileg lygi að tala um þjóðarmorð

Raphael Schutz, sendiherra Ísraels fyrir Ísland.
Raphael Schutz, sendiherra Ísraels fyrir Ísland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Raphael Schutz, sendiherra Ísrael fyrir Ísland, fordæmir harðlega ályktun landsfundar Vinstri grænna varðandi Ísrael, þar sem fundurinn hvetur til þess að ríkisstjórnin slíti stjórnmálasambandi við Ísrael og að sett verði viðskiptabann á ísraelskar vörur.

Sendiherrann, sem hefur aðsetur í Osló, er staddur hér á landi í heimsókn og mun m.a. funda með borgarstjóra á morgun og borgarfulltrúum á þriðjudag, til að ræða tillögu um að sniðganga ísraelskar vörur sem samþykkt var í borgarstjórn 15. september sl.

Í yfirlýsingu sem Schutz sendi mbl.is segir sendiherrann að notkun orðsins „þjóðarmorð“ í tengslum við deilu Ísraelsmanna og Palestínumanna sé „svívirðileg lygi“.

„Það gefur til kynna annað hvort fullkomna vanþekkingu eða algjört siðleysi, og ef til vill bæði,“ segir í yfirlýsingunni, sem barst með milligöngu heiðurskonsúls Ísrael á Íslandi, Páls Arnórs Pálssonar.

Schutz segist hafa óskað eftir fundi með leiðtoga Vinstri grænna, Katrínu Jakobsdóttur, á meðan heimsókn hans stæði, en hann hefði ekki fengið svar.

„Að taka afstöðu af þessu tagi án þess að veita ásakaða sanngjarna áheyrn virðist eitthvað frá dögum Stalín eða nútíma Norður-Kóreu, ekki eitthvað frá flokki sem byggir á lýðræðislegum gildum.“

Schutz endar á því að segja að hann myndi enn vilja eiga fund með Katrínu ef þess væri kostur.

Uppfært kl. 18.49:

Í tölvupósti frá Páli Arnóri sem barst mbl.is fyrir stundu segir að í ljós hafi komið að formaður VG hafi svarað beiðni sendiherrans fyrr í dag, áður en yfirlýsingin var send út. Tók hún „jákvætt“ í beiðni hans um viðtal.

Frétt mbl.is: Samþykktu að slíta sambandi við Ísrael

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka