Sendiherra Ísraels gagnvart Noregi og Íslandi, Raphael Schutz, fundar í dag með Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur, en umræðuefni fundarins verður sú ákvörðun meirihluta borgarstjórnar í síðasta mánuði að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu borgarinnar á ísraelskum vörum.
Tillagan var síðar dregin til baka á þeim forsendum að ekki hafi verið vandað nægjanlega vel til hennar. Hún hafi þannig aðeins átt að ná til varnings sem framleiddur væri á þeim svæðum sem hernumin væru af ísraelska hernum. Breytt tillaga hefur hins vegar ekki verið lögð fram en Dagur hefur ítrekað sagt að um mistök hafi verið að ræða.
Schutz, sem er með aðsetur í Noregi, mun einnig funda með Katrínu Jakobsdóttir, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, en landsfundur VG sem fram fór um síðustu helgi hvatti til þess að sett yrði viðskiptabann á ísraelskar vörur og að stjórnmálasambandi við Ísrael yrði slitið. Þá var Ísraelsríki sakað um þjóðarmorð á Palestínumönnum.
Sendiherra Ísraels sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann fordæmdi harðlega ályktun landsfundar VG varðandi Ísrael. Sagði hann það fela í sér svívirðilega lygi að saka Ísrael um þjóðarmorð vegna deilu Ísraelsmanna og Palestínumanna. „Það gefur til kynna annaðhvort fullkomna vanþekkingu eða algjört siðleysi, og ef til vill bæði,“ sagði í yfirlýsingunni.
Schutz mun einnig funda með borgarfulltrúum í Reykjavík í heimsókn sinni til Íslands auk þess sem hann heimsækir utanríkisráðuneytið og ræðir við fulltrúa stjórnvalda. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í samtali við mbl.is í síðasta mánuði að stefna stjórnvalda gagnvart Ísrael yrði ítrekuð í heimsókn sendiherrans til landsins.