Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki enn haft hendur í hári manns sem grunaður er um rán í skartgripaversluninni Gullsmiðjunni í Hafnarfirði í félagi við annan mann. Þýfið er einnig ófundið en talið er að verðmæti þess hlaupi á milljón í hið minnsta
Tveir grímuklæddir menn ógnuðu starfsmanni verslunarinnar með bareflum og hnífum síðdegis á fimmtudag í síðustu viku. Flúðu þeir af vettvangi á hvítum jepplingi sem reyndist vera stolinn og á röngum skráningarmerkjum. Bílnum var ekið á ofsahraða, meðal annars á móti umferð og utan í annan bíl. Fannst jepplingurinn við afleggjarann til Grindavíkur seinna um daginn.
Frétt mbl.is: Ógnaði sérsveit með gasbyssu
Annar maðurinn var handtekinn í Keflavík um kvöldið. Ekki var hlaupið að því að handtaka manninn þar sem hann skaut meðal annars í átt að sérsveitarmönnum með gasknúinni skammbyssu sem í voru málmbikarar. Farið var fram á tveggja vikna gæsluvarðhald yfir manninum eftir að hann hafði verið yfirheyrður, eða til föstudagsins 6. nóvember.
„Það er oft þannig með þessi mál að fyrsti sólarhringurinn eða tveir eru mjög hraðir, mikið að gerast en síðan hægist um og þá er farið í að skoða gögn og vinna sig úr því sem liggur fyrir af upplýsingum og gögnum. Það er það sem er að gerast núna, við erum bara að þreifa okkur áfram,“ segir Bjarni Ólafur Magnússon, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Búið er að yfirheyra fleiri vegna málsins en enga sem taldir eru vera hinn maðurinn sem kom beint að ráninu. „Við vitum að við erum ekki búin að finna hinn manninn en við erum með gögn og vitnisburði og eigum eftir að fá niðurstöðu úr rannsóknum tækni- og tölvurannsóknardeildar sem leiða okkur vonandi þangað,“ segir Bjarni Ólafur.