Skýra þurfi utanríkisstefnuna

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavík, og Raphael Schutz, sendiherra Ísrael.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavík, og Raphael Schutz, sendiherra Ísrael. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta var fínn fundur. Hann var efnismikill og hreinskilinn,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, í samtali við mbl.is, en hann fundaði í dag með sendiherra Ísraels gagnvart Noregi og Íslandi í ráðhúsi borgarinnar.

Rædd voru á fundinum samskipti Íslands og Ísraels í kjölfar þeirrar ákvörðunar meirihlutans í borgarstjórn í síðasta mánuði að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu borgarinnar á ísraelskum vörum. Tillaga sem síðar var dregin til baka í kjölfar mikilla mótmæla.

Dagur segist hafa lagt áherslu á mannréttindi og að samstaða væri á meðal Íslendinga um mikilvægi þess að standa vörð um þau alls staðar í heiminum. Mikilvægt væri að ríki sinntu skyldum sínum í þeim efnum gagnvart öllu fólki á því landsvæði sem þau bæru ábyrgð á. Ekkert óeðlilegt væri að málefni Ísraels og Palestínu væru fólki ofarlega í huga í þeirri umræðu.

Aðspurður segir Dagur að minnst hafi verið rætt um ákvörðun borgarstjórnarmeirihlutans enda hafi sendiherrann greinilega þekkt ágætlega til þess máls. Meira hafi verið rætt um deiluna fyrir botni Miðjarðarhafsins og tengsl Íslands og Ísraels. Dagur hafi lagt áherslu á svokallaða tveggja ríkja lausn í deilunni og að flestir á Norðurlöndum og víðar um heiminn áðhylltust hana sem leið til friðar.

Hyggst ræða við aðra borgarstjóra

„Mér fannst mikilvægt að koma því á framfæri hvers vegna flestir sem aðhyllast tveggja ríkja lausnina líta á ólöglegu landnemabyggðirnar og hernumdu svæðin sem í raun ljón á þeim vegi. Þess vegna er svona mikið rætt um þau í þessu samhengi,“ segir Dagur. Hluti af stuðningi við tveggja ríkja lausnina væri að styðja á engan hátt við hernumdu svæðin. 

Spurður hvort vænta megi annarrar tillögu þess efnis að sniðganga nái aðeins til varnings sem framleiddur er á þeim svæðum sem hernumin eru af Ísraelsher eins og boðað hefur verið segist Dagur ætla að bera saman bækur sínar við borgarstjóra Kaupmannahafnar og aðra borgarstjóra sem hafa fetað hliðstæð spor og hvernig útfærslan er hjá þeim.

„Við Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra höfum einnig borið saman bækur okkar. Mér þótti verða svolítið óljóst í umræðu um samþykkt borgarstjórnar hver utanríkisstefna Íslands er því það er rétt rúmt ár síðan utanríkisráðuneytið lagði fram umsögn um þingsályktunartillögu þar sem beinlínis var mælt með því að ýta ekki undir neina uppbyggingu eða slíkt á hernumdu svæðunum. Þannig að það er eitthvað sem þarf að skýra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka