Tilgangurinn ekki að mótmæla

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavík, og Raphael Schutz, sendiherra Ísrael.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavík, og Raphael Schutz, sendiherra Ísrael. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta var mjög opinn og hreinskiptinn fundur. Ég er mjög ánægður með hann og þakklátur borgarstjóranum fyrir að hafa gefið sér góðan tíma til að ræða við mig,“ segir Raphael Schutz, sendiherra Ísraels gagnvart Noregi og Íslandi, í samtali við mbl.is.

Sendiherrann fundaði í dag með Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur, í ráðhúsi borgarinnar um samskipti Íslands og Ísraels í kjölfar þeirrar ákvörðunar meirihlutans í borgarstjórn í síðasta mánuði að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu borgarinnar á ísraelskum vörum. Tillaga var síðar dregin til baka í kjölfar mikilla mótmæla. Ekki síst erlendis frá.

Spurður hvort hann hafi komið á framfæri mótmælum við Dag vegna málsins segir Schutz að ekki hafi þótt ástæða til þess þar sem ákvörðun borgarstjórnarmeirihlutans hafi verið dregin til baka, viðbrögð utanríkisráðuneytisins hafi verið mjög jákvæð og málið þar með í raun að baki.

„Tilgangur fundarins með borgarstjóra af minni hálfu var ekki sá að koma á framfæri formlegum mótmælum heldur frekar að ræða málinsem ég tel mikilvægt til þess að útskýra betur fyrir fólki hvernig málin horfa við okkur,“ segir hann. Gjarnan væri litið svo á að málið væri svart og hvítt þar sem Ísraelsmenn væru vondir og Palestínumenn góðir. Rök sem kæmu ekki heim og saman við þá heimsmynd væru sjálfkrafa höfð að engu. Það væri ekki uppbyggilegt.

Starfsmenn fyrirtækjanna Palestínumenn

Schutz segir mikilvægt að dæma ekki öll samskipti Íslands og Ísraels á grundvelli deilunnar fyrir botni Miðjarðarhafsins. Ríkin tvö gætu átt samstarf á fjölmörgum sviðum. Til að mynda á sviði efnahagsmála, menningarmála, nýsköpunar og hátækni í þágu hagsmuna beggja aðila. 

„Við kunnum að vera ósammála varðandi Miðausturlönd en staðan þar ætti ekki að vera eitthvað sem dæmir öll okkar samskipti,“ segir hann. Spurður hvort það breytti einhverju ef ákvörðun af hálfu borgarstjórnarmeirihlutans næði aðeins til hernumdu svæðanna segir sendiherrann að ekki væri gerður greinarmunur í þeim efnum í Ísrael.

„Það myndi ekki færa okkur nær friði og í reynt myndi það skaða Palestínumenn meira en Ísraelsmenn þar sem um 90% starfsmanna fyrirtækja á þessum svæðum eru Palestínumenn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka