11 banaslys á Suðurlandi á árinu

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Selfossi.
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Selfossi. Sigurður Bogi Sævarsson

Það sem af er ári hafa 11 banaslys komið til kasta lögreglunnar á Suðurlandi. Það svarar til  106 banaslysa á höfuðborgarsvæðinu miðað við íbúatölu, segir  Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn í lögreglunni á Suðurlandi.

Umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi spannar stórt svæði og eru lögregluvarðstofurnar fimm talsins, Selfossi, Hvolsvelli, Vík, Kirkjubæjarklaustri og á Höfn í Hornafirði. Alls starfa 36 lögreglumenn hjá embættinu. Alls eru íbúar á svæðinu 22 þúsund talsins.

Oddur segir að fyrstu níu mánuði síðasta árs slösuðust 43 erlendir ferðamenn á Suðurlandi en í á fyrstu níu mánuðum ársins í ár eru þeir 117 talsins. Svo ekki sé talað um þau heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamál sem hafa komið til kasta lögreglunnar.

„Þetta er mikið álag,“ segir Oddur en hann er stoltur af þeim hópi lögreglumanna sem hann tilheyrir og stendur vaktina sama á hverju gengur. 

Að sögn Odds eyrnamerkti fyrrverandi innanríkisráðherra, Hann Birna Kristjánsdóttir, fimm hundruð milljónir króna sem settar voru inn í lögregluna en eftir hrunið voru teknir 2,8 milljarðar króna út úr löggæslunni.

„Þessar 500 milljónir króna er það eina sem hefur komið til baka en þessir fjármunir koma inn á fjáraukalögum og því ekki verðbætt á milli ára. Þannig að þegar við fáum okkar hluta af þessu inn í föst fjárlög um áramót, það er 93 milljónir króna, þá hafa þessar 500 milljónir rýrnað um 20 milljónir að raungildi,“ segir Oddur í samtali við mbl.is.

Alls eru 36 lögreglumenn á Suðurlandi en umdæmið er mjög …
Alls eru 36 lögreglumenn á Suðurlandi en umdæmið er mjög víðfemt og fjölfarið. Malín Brand
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert