Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Austurlands um að hafna kröfu verjanda hollensks karlmanns um að fá aðgang að öllum fyrirliggjandi gögnum í máli sem snýst um innflutning á fíkniefnum í húsbíl með Norrænu. Er kröfunni hafnað vegna erlendra rannsóknarhagsmuna.
Héraðsdómur Austurlands úrskurðaði í málinu þann 8. október og næsta dag skaut lögmaður karlmannsins því með kæru til Hæstaréttar. Var þess aðallega krafist að fallist yrði á þá kröfu að fá aðgang að öllum gögnum málsins, en til vara að sóknaraðila, lögreglustjóranum á Austurlandi, yrði sett mörk að því er varðar þann tíma sem hann getur haldið gögnum frá verjanda.
Lögreglustjórinn á Austurlandi krafðist staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Karlmaðurinn og sambýliskona hans eru grunuð um að hafa flutt með sér til landsins verulegt magn fíkniefna með Norrænu þann 8. september. 9. september var parið úrskurðað í tveggja vikna gæsluvarðhald sem var síðar framlengt.
Í þinghaldi 5. október sl. lýsti fulltrúi lögreglustjóra því yfir að verjanda mannsins yrðu afhent ljósrit allra rannsóknargagna þann dag, að þeim gögnum undanskildum sem tilheyrðu V. kafla á skjalaskrá lögreglunnar og ber heitið „Rannsóknarbeiðnir, erlend stjórnvöld og stofnanir“, en þau gögn vildi lögregla ekki afhenda að svo stöddu. Var þá bókað um að ágreiningur aðila lyti einungis að framangreindum gögnum. Krafðist fulltrúi lögreglustjóra þess að kröfu verjanda um aðgang að þessum gögnum yrði hafnað. Var málið tekið til úrskurðar.
Verjandi mannsins fór margítrekað farið fram á það við fulltrúa lögreglustjóra, rannsóknarlögreglumann og aðstoðarsaksóknara að fá afrit af gögnunum. Tókst honum að fá afrit af framburðarskýrslum mannsins sjálfs, en að öðru leyti hafi verjanda verið neitað um að sjá gögn eða fá afrit af gögnum.
Í úrskurði héraðsdóms Austurlands segir að ljóst sé að talsvert hljóti að vera orðið til af gögnum hjá lögreglu, svo sem framburðarskýrslur af sambýliskonu karlmannsins, skýrslur tæknideildar lögreglu um greiningu og vigtun fíkniefna, skýrslur tæknideildar um rannsókn á húsbíl sakbornings og um rannsókn á fingraförum/lífsýnum á umbúðum efnanna, símagögn vegna síma beggja kærðu, skýrsla tollgæslunnar og gögn um samskipti við lögreglu erlendis o.s.frv. Verjandi mannsins taldi mikilvægt að fá afrit eða annan aðgang að öllum gögnum málsins, enda um mikilsverð mannréttindi að ræða svo hann gæti gætt hagsmuna umbjóðanda síns.
Lögreglustjórinn á Austurlandi taldi hins vegar að yrði verjanda veittur aðgangur að öllum gögnum gæti það skaðað rannsóknarhagsmuni erlendra yfirvalda.
Í niðurstöðu héraðsdóms er vísað til laga um meðferð sakamála þar sem kveðið er á um rétt verjanda til að fá, jafnskjótt og unnt er, afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Þó er lögreglu heimilt að neita verjanda um aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Af sömu ástæðu er lögreglu heimilt að neita verjanda um afrit af einstökum skjölum meðan á rannsókn máls stendur.
Var því kröfu verjanda um að fá öll gögn málsins afhent, hafnað.