Fjöldi lögreglumanna og tollvarða á Keflavíkurflugvelli helst ekki í hendur við aukna umferð um völlinn. Á sama tíma og farþegum hefur fjölgað um meira en tvær milljónir hefur tollvörðum og fíkniefnahundum fækkað. Þetta var meðal þess sem kom í ljós þegar mbl.is bar saman tölur frá Isavia, Lögreglunni á Suðurnesjum og tollstjóraembættinu.
Frá árunum 2010 til 2014 fjölgaði farþegum um 1,8 milljónir eða 87%.
Á sama tíma var tollvörðum fækkað úr 44 í 40 eða um 9% og föstum hundum í tolli úr þremur í einn*.
Í ár var tollvörðum fjölgað aftur um tvo og auk þess sem bætt var við einum hundi.
Það er þó enn fækkun frá árinu 2010 á meðan að gert er ráð fyrir að farþega fjöldi ársins verði um 4,9 milljónir eða 137% hærri en árið 2010 þegar rúmar 2 milljónir farþega fóru um völlinn.
Árið 2010 voru 20 lögreglumenn í föstu starfi á Keflavíkurflugvelli. Þeim var fjölgað um fjóra árið 2013 og árið eftir voru ráðnir átta landamæraverðir.
Fastir starfsmenn flugstöðvardeildar Lögreglunnar á Suðurnesjum eru því 32** alls eða um 60% fleiri en árið 2010. Hinsvegar er rétt að taka fram að landamæraverðirnir eru í hlutastörfum og fara þar að auki ekki með lögregluvald. Þeir geta því ekki fylgt málum sem upp koma eftir líkt og lögreglumenn.
Áætlað er að farþegar um Keflavíkurflugvöll árið 2016 verði um 6,1 milljón 56% fleiri en árið 2014 og 200% fleiri en árið 2010. Samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir að fjöldi lögreglumanna og landamæravarða verði áfram 32 eins og verið hefur frá árinu 2014.
Má þess geta að tekjur Keflavíkurflugvallar jukust um 3,7 milljarða frá árinu 2010 til 2014 eða 59%.
*Með „föstum hundum“ er átt við hunda sem hafa gæslu á Keflavíkurflugvelli sem sinn aðalstarfa en auk þeirra nýtur tollgæslan á Keflavíkurflugvelli reglulega aðstoðar þriggja hunda tollgæslunnar í Reykjavík.
** Ársverk 2015 eru 36,52 og skýrist sú tala af tímabundnum afleysingarstöðum reiknuðum út frá stöðugildum á ársgrundvelli.