„Við munum reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að bjarga þessu dýri,“ segir Jón Stefánsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is en ung hrefna hefur synt upp að landsteinum við smábátahöfnina á Þórshöfn og situr þar föst.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is er dýrið talið vera um fjórir og hálfur meter á lengd og er það, að því er virðist, lítillega sært. Er það að líkindum vegna þess að dýrið hefur rekist utan í mannvirki í höfninni, s.s. flotbryggju, eða særst vegna íss sem nú liggur í höfninni.
Jón segir nú unnið að því að finna leið til þess að koma hrefnunni út úr höfninni svo hún geti ratað aftur á haf út. Verður meðal annars fengin grafa á svæðið til þess að grafa skurð sem hjálpað gæti dýrinu af strandstað.
Aðspurður segir Jón hrefnuna mjög rólega. „Dýrið virðist vera í góðu ástandi og góðum holdum. Það er sallarólegt og virðist ekki stressað,“ segir hann.
Hrefnan sást fyrst í höfninni klukkan níu í morgun en milli klukkan eitt og tvö var hún komin enn innar, eða inn fyrir flotbryggjuna í smábátahöfninni. „Það hefur svo fjarað undan því í dag.“
Lögreglan hefur verið í nánu sambandi við yfirdýralækni og Hafrannsóknastofnun vegna málsins. „Það er mjög erfitt að bjarga svona dýrum því þegar þau hafa verið lengi á landi missa þau jafnvægið. Og þá þarf alls kyns hundakúnstir svo þau nái aftur áttum. Þetta er því og verður mjög erfitt verkefni,“ segir Jón og bætir við að alls óvíst sé á þessari stundu hvort hægt verði að bjarga dýrinu af strandstað.
Takist ekki að koma hrefnunni á flot í kvöld mun lögreglan ráðfæra sig við sveitarstjóra og yfirdýralækni varðandi næstu skref. Háflóði er spáð klukkan tíu í kvöld.