Syndir nú frjáls í höfninni

„Hrefnan er laus og syndir nú frjáls einhvers staðar í höfninni, en svo er bara spurning um framhaldið,“ segir Jón Stefánsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is en greint var frá því fyrr í kvöld að ung hrefna hefði synt upp að landsteinum við smábátahöfnina á Þórshöfn og fest sig þar. 

Jón segir hóp sjálfboðaliða, s.s. björgunarsveitamenn og verktaka á vegum BJ vinnuvéla, hafa unnið hörðum höndum að því að losa dýrið, sem talið er vera um fjórir og hálfur metri á lengd, þar sem það sat fast í fjörunni. Var grafið í sandinn umhverfis hrefnuna til þess að veita dýrinu rými til að athafna sig og því næst skurður sem leiddi út í sjó.

„Við fylgdum þeim ráðleggingum sem fengust frá yfirdýralækni og rugguðum dýrinu meðal annars til. Það var búin til eins konar sundlaug í kringum það og síðan skurður út,“ segir Jón og bætir við að björgunarsveitamenn, íklæddir flotgöllum, hafi svo fylgt hrefnunni út í höfnina aftur.

„Svo er bara spurning hvað gerist í framhaldinu og þá hvort dýrið fari upp í fjöru aftur. En við vonum auðvitað að það nái að rata út úr höfninni,“ segir Jón og bætir við að fylgst verði með hafnarsvæðinu fram eftir kvöldi.

Fyrri frétt mbl.is:

Hrefna í vanda á Þórshöfn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert