Nýtt samkomulag um vinnubrögð við kjarasamningsgerð gefa aðilum vinnumarkaðar betra umhverfi til að semja um raunverulegar kjarabætur og tryggja stöðugleika. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á þingi BSRB í morgun. Hann sagðist hafa saknað samhljóms í kröfum við samningaborðið í viðræðum á þessu ári.
Þing BSRB sem sett var í morgun hófst á flutningi söngkonunnar Sigríðar Thorlacius á tveimur lögum. Þegar fjármálaráðherra ávarpaði þingið skömmu síðar greip hann til tungumáls tónlistarinnar þegar hann sagðist hafa saknað samhljóms við samningaborðið á erfiðu ári kjaraviðræðna.
Frétt mbl.is: Á leið af braut samhjálpar
Sumir hafi lagt áherslu á að nota allt það svigrúm sem væri að skapast með batnandi efnahag landsins til þess að bæta kjör þeirra tekjulægstu, aðrir hafi sagt að það ætti að nota til að meta menntun fólks til launa og enn aðrir að það bæri að nota til þess að tryggja að færasta og besta heilbrigðisstarfsfólkið leitaði ekki til annarra landa.
Sagði Bjarni að ef fara ætti í gegnum samningslotu þar sem allir vildu að laun sín yrðu leiðrétt þá færi hann að hafa áhyggjur af því að verið væri að taka út launahækkanir langt umfram vöxt framleiðni í landinu. Ekki þyrfti að lesa lengi í sögu kjaramála á Íslandi til þess að sjá að það hafi gerst oft áður og það hafi leitt til verðbólgu og hærra vaxtastigs en fólk vildi búa við.
Af þeirri ástæðu hafi stjórnvöld lagt áherslu á að hlusta á kröfur um bætt kjör en á sama tíma viljað taka samtal um að gera þurfi betur en svo að allir fái ýtrustu kröfur sínar uppfylltar og enn ein byltan væri tekin.
Því sagðist fjármálaráðherra fagna sérstaklega samkomulagi Salek-hópsins svonefnda um rammasamning um launaþróun á vinnumarkaði sem náðist í gær. Hann væri ekki síður merkilegur en kjarasamningurinn sem náðist í nótt við SFR, sjúkraliða og lögreglumenn.
Í rammasamningnum væri horft til langrar framtíðar og í honum væri innlegg um hvað væri hægt að gera til að tryggja traust á vinnumarkaði, færa stéttarfélögum og vinnuveitendum betra umhverfi til að tryggja raunverulegar kjarabætur og stöðugleika. Um tímamótasamkomulag væri að ræða sem hann bindi miklar vonir við.
Þá tilkynnti Bjarni um tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma án launaskerðingar sem hann hefði undirritað ásamt Eygló Harðardóttur, félagsmálaráðherra. Stjórnvöld hafi heyrt skýrt í viðræðum þessa árs hversu mikilvægt væri að láta á þetta reyna og sagðist hann vonast til þess að verkefnið skilaði niðurstöðum sem hægt væri að vinna með. Tilgangurinn væri að reyna að gera vinnumarkaðinn fjölskylduvænni.