David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, mun hitta Sigmund Davið Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, í Alþingishúsinu núna á eftir, en Cameron mætti áðan til landsins. Fjöldi lögreglumanna er nú á Austurvelli, en blaðamaður mbl.is sem er á staðnum segir að sex lögreglubílar séu við Alþingishúsið og vel á annan tug lögreglumanna sé á svæðinu.
Þá hefur mbl.is heimildir fyrir því að Cameron muni hitta erlendan fréttamann í Iðnó, en á sunnudaginn var sagt frá því að Cameron myndi nýta heimsóknina til Íslands til að lýsa því yfir að hann voni að Bretar verði áfram innan Evrópusambandsins og að fyrirkomulag eins og Norðmenn hafi við sambandið henti ekki breskum hagsmunum.
Samkvæmt blaðamanni mbl.is er augljóst að einhver fjöldi sérsveitamanna er í kringum Alþingishúsið, en heimsókn þjóðarleiðtoga kallar venjulega á slíka gæslu. Þá eru lögreglumenn við stjórnarráðið og fyrir aftan Alþingishúsið í átt að Iðnó. Gert er ráð fyrir að fundur forsætisráðherranna byrji klukkan 17:15.
Uppfært 17:04: Cameron kom rétt í þessu í Iðnó með bílalest sinni.
Uppfært 17:12: Fundurinn í Iðnó var í styttra lagi, en Cameron er strax kominn út aftur og hélt hann beint í Alþingishúsið þar sem hann mun hitta Sigmund Davíð.