Frá Cameron í kanadískt „selfie“

David Cameron og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hittast við Alþingi.
David Cameron og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hittast við Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Bílalest David Camerons, forsætisráðherra Bretlands, lagði af stað frá Reykjavíkurflugvelli um klukkan 17 í dag og var fyrst stoppað fyrir utan Iðnó í Reykjavík þar sem ráðherrann átti, samkvæmt heimildum mbl.is, stuttan fund með erlendum fréttamanni.

Á meðan Cameron var inni í Iðnó beið bílalestin og hópur lögreglu- og sérsveitarmanna fyrir utan ásamt blaðamanni mbl.is. Fljótlega fór þó að bera á fleira fólki og voru erlendir ferðamenn þar áberandi.

Þegar dyrnar loks opnuðust og Cameron gekk í átt að bifreið breska sendiráðsins mátti vel heyra hve undrandi ferðamennirnir voru við það að sjá Cameron á götu úti í Reykjavík, en sumir þeirra voru samlandar ráðherrans.

„David - ég er frá Yorkshire á Englandi,“ kallaði einn í þeirri von að fá Cameron til þess að líta á myndavélina. „Það er svo töff að sjá forsætisráðherrann okkar í öðru landi,“ sagði ungur breskur drengur við sama tilefni.

Næsta stopp var fyrir utan Alþingishúsið þar sem Cameron fékk stutta kynningu um húsið áður en hann hitti Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á fundi.

Enn vakti bílalestin athygli fólks þar sem hún beið fyrir utan þinghúsið, en að þessu sinni var áhorfendahópurinn blandaðri. Erlendir ferðamenn voru þó í meirihluta líkt og áður. 

Ferðamenn fengu „selfie“ með Sigmundi

Eftir að Cameron kvaddi þingið gaf Sigmundur Davíð færi á stuttu viðtali fyrir utan Alþingishúsið. Fljótlega áttuðu ferðamennirnir sig á því við hvern var rætt og þegar blaðamaður sleppti taki á ráðherranum var röðin komin að þeim.

Meðal þeirra sem nálguðust forsætisráðherra var fjölskylda, hjón og þrjú börn, frá Kanada. „Ert þú forsætisráðherra Íslands,“ var spurt úr hópnum sem því næst kynnti sig. Ráðherrann jánkaði því og var þá spurt á ný: „Megum við fá sjálfsmynd með þér.“

Stillti hópurinn sér því næst upp við Sigmund Davíð á meðan starfsmaður ráðuneytisins tók af þeim mynd með Alþingishúsið í bakgrunni.

David Cameron mætir í Iðnó.
David Cameron mætir í Iðnó. mbl.is/Kristján H. Johannessen
Cameron gengur út úr Iðnó í átt að bílalestinni sem …
Cameron gengur út úr Iðnó í átt að bílalestinni sem beið hans. mbl.is/Kristján H. Johannessen
Beðið eftir Cameron.
Beðið eftir Cameron. mbl.is/Kristján H. Johannessen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert