Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, kemur til Íslands í opinbera heimsókn í dag í tengslum við ráðstefnuna Northern Future Forum sem fram fer á morgun. Síðdegis í dag fundar hann með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra.
Cameron hefur gegnt embætti forsætisráðherra Bretlands frá árinu 2010. Fyrri ríkisstjórn hans var í samstarfi við Frjálslynda demókrata en í kjölfar þingkosninganna síðasta vor hlaut flokkur hans Íhaldsflokkurinn hreinan meirihluta á breska þinginu og gat fyrir vikið myndað ríkisstjórn einn síns liðs án samstarfs við aðra flokka. Fyrir 2010 hafði Íhaldsflokkurinn ekki verið í ríkisstjórn í 13 ár eða frá árinu 1997 og ítrekað skipt um leiðtoga á þeim tíma.
Kominn af Vilhjálmi IV Bretakonungi
En hver er David Cameron? Cameron var fæddur 9. október 1966. Hann er sonur verðbréfasalans Ian Donald Cameron og eiginkonu hans Mary Fleur. Móðir hans var dóttir aðalsmannsins Sir William Mount. Cameron á eldri bróður, Alexander sem starfar sem lögmaður, og tvær systur. Þær Taniu Rachel og Clare Louise. Cameron rekur meðal annars ættir sínar til Vilhjálms IV Bretakonungs (1765-1837) og hjákonu hans Dorotheu Jordan.
Cameron er kominn af ýmsum fleiri fyrirmennum í bresku samfélagi í gegnum tíðina og á líkt og fleiri landar hans ættir að rekja víðsvegar um Bretlandseyjar. Hann hefur sjálfur lýst sér sem blöndu af Englendingi, Skota og Wales-búa. Þá á hann að sama skapi ættir að rekja út fyrir landsteinana. Þannig var einn af forfeðrum hans, Emile Levita, þýskur kaupsýslumaður og bankamaður sem gerðist breskur ríkisborgari árið 1871.
Gripinn við að reykja kannabis í háskóla
Cameron fæddist í Marylebone-hverfinu í London og stundaði nám við einkaskóla. Hann honum gekk vel í námi og hóf síðar nám við Eton-menntaskólann 13 ára gamall en bæði bróðir hans og faðir höfðu áður stundað þar nám. Cameron gekk sem fyrr vel í náminu en var hins vegar gripinn við að reykja kannabis á meðan á skólavistinni stóð. Hann gekkst við því en þar sem hann hafði ekki gerst sekur um að selja slík efni var honum refsað en ekki vikið úr skóla.
Eftir að Cameron útskrifaðist frá Eton lá leiðin í Oxford-háskóla þar sem hann las heimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði. Cameron tók ekki mikinn þátt í stúdentapólitíkinni en var hins vegar meðlimur í félaginu Bullingdon Club sem þekkt er fyrir drykkjuskap og almennt slæma hegðun félagsmanna. Cameron útskrifaðist með meistaragráðu frá Oxford árið 1988 með fyrstu einkunn. Í kjölfarið gegndi hann ýmsum ráðgjafastörfum tengdum stjórnmálum.
Gersigraði í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins
Cameron var kjörinn á breska þingið fyrir kjördæmið Witney í Oxfordskíri 2001. Áður hafði hann reynt nokkrum sinnum að ná kjöri sem þingmaður í öðrum kjördæmum. Eftir að Cameron tók sæti á þingi hlaut hann skjótan frama og var meðal annars skipaður í skuggaráðuneyti Íhaldsflokksins 2003 og síðar sama ár varaformaður Íhaldsflokksins í kjölfar þess að Michael Howard tók við sem leiðtogi flokksins en Cameron hafði áður sinnt ráðgjafastörfum fyrir hann.
Eftir að Howard sagði af sér sem leiðtogi eftir að Íhaldsflokkurinn tapaði þingkosningunum 2005 ákvað Cameron að taka þátt í leiðtogakjörinu innan flokksins. Cameron gersigraði helsta keppinaut sinn, þingmanninn David Davis, og tók formlega við sem leiðtogi í desember sama ár. Enginn stjórnmálaflokkur náði hreinum meirihluta þingsæta í kosningunum 2010 og varð niðurstaðan sú að Cameron samdi við Frjálslynda demókrata um stjórnarsamstarf.
Skírði dóttur sína eftir þorpi í nágrenninu
Cameron kvæntist Samönthu Gwendoline árið 1996 og eiga þau fjögur börn; Ivan Reginald Ian (2002), Nancy Gwen (2004), Arthur Elwen (2006) og Florence Rose Endellion (2010). Síðastnefnda barnið var fætt fyrir tímann þegar fjölskyldan var á ferðalagi í Cornwall í suðvesturhluta Englands. Síðasta nafnið hennar var valið vegna þorpsins St Endellion sem er skammt frá þeim stað þar sem fjölskyldan var að ferðast.
Forsætisráðherrann heldur með knattspyrnuliðinu Aston Villa í enska boltanum. Hann fylgist að sama skapi með krikket. Hann hjólaði gjarnan hér áður fyrr á leið sinni í vinnu en hefur gert minna af því í seinni tíð. Þess í stað skokkar hann reglulega. Sem stjórnmálamaður hefur hann þótt frjálslyndur í skoðunum og skilgreindi sig eitt sinn sem arftaka Tonys Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Verkamannaflokksins.