Mikil óánægja er meðal ljósmæðra á Landspítalanum. Þær hafa ekki fengið að fullu greidd laun fyrir vinnu meðan á verkfalli þeirra stóð sl. vetur.
Óánægjan brýst fram með ýmsum hætti. Ljósmæður treysta sér ekki til að taka aukavaktir meðan á þessu stendur og sumar hafa sagt sig úr styrktarfélagi kvennadeildar og hætt að kaupa mjólk sem seld er til styrktar spítalanum.
„Það er mikil óánægja núna á spítalanum. Við vorum sannarlega að vinna í verkfallinu og eigum að fá greitt fyrir vinnu sem við leggjum fram,“ segir Guðrún I. Gunnlaugsdóttir, ljósmóður á Landspítala, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Ljósmæður hafa krafist fullra launa fyrir vinnu sína en ekki fengið og meirihluti félagsdóms dæmdi ríkinu í hag í máli sem BHM höfðaði vegna ljósmæðra.