Biskup Íslands braut jafnréttislög

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is/Ómar

Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, braut jafnréttislög þegar sr. Þráinn Haraldsson var skipaður í embætti prests í Garðaprestakalli í janúar á þessu ári. Sr. Úrsúla Árnadóttir kærði ráðninguna. Þetta kemur fram í úrskurði Kærunefndar jafnréttismála.  

Embættið var auglýst til umsóknar í byrjun nóvember á síðasta ári. Þar kom fram að við val á presti yrði hæfni í mannlegum samskiptum meðal annars lögð til grundvallar sem og reynsla af barna- og unglingastarfi. Tíu umsóknir bárust um embættið og voru umsækjendur boðaðir á fund valnefndar í Garðaprestakalli.

Að fundi loknum taldi valnefndin að Þráinn væri best til þess fallinn að gegna embættinu. Biskup boðaði Úrsúlu, Þráin og tvo aðra umsækjendur til viðtals og skipaði Þráin í embættið skömm síðar. Óskaði Úrsúla í kjölfarið eftir rökstuðningi biskups fyrir skipuninni. Skessuhorn greindi fyrst frá málinu.

Í samtali við mbl.is segist Úrsúla ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hún muni kæra ráðninguna. Kæran hafi aldrei verið spurning, heldur hluti af hennar lífsreglum að bregðast við á þennan hátt. „Mér er mjög annt um kirkjuna mína og vona að málið verði leyst í framhaldinu án frekari kæru,“ segir Úrsúla. 

Biskup Íslands setti Úrsúlu til þjónustu prests afleysingum í Vestmannaeyjaprestakalli frá 15. september til 30. júní 2016. 

Þyki góður ræðumaður og predikari

Í úrskurði kærunefndar jafnréttismála sem mbl.is hefur undir höndum segir að Úrsula hafi talið að hún væri að minnsta kosti jafnhæf og Þráinn til þess að gegna embættinu. Brotið hefði verið gegn dómafordæmi Hæstarétar um túlkun jafnréttislaga. Við Garðaprestakall hefði starfað á skipunartímanum karl sem sóknarprestur og jafnframt væru konur færri í embættum presta á landsvísu.

Þá taldi Úrsúla að við valið á Þráni hefði verið valinn karlmaður með minni menntun og minni starfsreynslu en hún. Lítið hefði verið gert úr menntun hennar og starfsreynslu í mati valnefndar en mikið úr minni menntun og reynslu Þráins.

Í úrskurðinum segir meðal annars að Úrsúla telji að hún hefði átt að fá fleiri stig en Þráinn fyrir liðinn hæfni til boðunar í mati valnefndar en þau fengu jafnmörg stig. Samkvæmt meðmæum hennar þyki hún góður ræðumaður og flytji góðar predikanir. Þráinn hafi aftur á móti aldrei unnið við kirkjulega boðun á Íslandi.

Rými til að skipa prest eftir geðþótta

Í athugasemdum Úrsúlu til Kærunefndar jafnréttismála bendir hún á að á undanförnum misserum hafi prestaköll með svipaðan fjölda sóknarbarna og Garðaprestakall og sambærilega þjónustuþörf auglýst eftir presti við hlið sóknarprests og meirihluti þeirra prestakalla hafi ekki séð ástæðu til að óska sérstaklega eftir öðrum hæfileikum en almennt er talið að prestur þurfi að hafa til að bera.

Tvö prestaköll hafi, auk Garðaprestakalls, séð einhverja ástæðu til að auglýsa sérstaklega eftir presti með áherslu á barna- og unglingastarf. Vill Úrsúla koma á framfæri þeim möguleika að valnefndir sem hafi ákveðinn umsækjanda í huga geti hugsanlega komist hjá því að fara eftir jafnréttislögum með því að setja þessi skilyrði inn í auglýsingar sínar. Þannig skapi þau sér meira rými til að velja prest eftir geðþótta með tilvísun í hæfileika í barna- og unglingastarfi.

Í athugasemdum biskups segir að ekki verði séð af gögnum málsins að beiðni sóknarnefndar og sóknarprests um þessi tilgreindu hæfisskilyrði hafi verið byggð á því að tiltekinn einstaklingur yrði þar hafður í huga. 

Frétt mbl.is: Ósáttur við skipun prests á Akranesi

Frétt mbl.is: Skipaður prestur á Akranesi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert