David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, er farinn af landi brott, en hann var hér í tæplega sólarhring vegna þátttöku á ráðstefnunni Northern future forum 2015. Auk Camerons voru átta forsætisráðherrar á ráðstefnunni, meðal annars Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands. Þá komu um 80 sérfræðingar frá fjölda ríkja til að taka þátt í ráðstefnunni.
Ráðstefnan var fyrst haldin árið 2011 að frumkvæði Davids Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og hefur síðan farið fram árlega. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni eru skapandi greinar og nýsköpun í opinberum rekstri.
Upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins staðfestir við mbl.is að Cameron sé farinn af landi brott, en vél hans átti að fara af stað klukkan fjögur í dag. Síðustu málin á dagskrá hans hér á landi voru einkafundir með þeim forsætisráðherrum sem voru á ráðstefnunni.