Cameron: Icesave að baki

„Það sem ég vil segja um Icesave-málið er að ég held að báðar þjóðir líti nú á það sem liðna tíð þegar kemur að samskiptum okkar og að við getum núna horft til framtíðar og rætt um önnur mál þar sem við getum átt í samstarfi.“

Þetta sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, við fyrirspurn frá mbl.is á blaðamannafundi sem fram fór í dag við lok ráðstefnunnar Northern Future Forum 2015. Spurning var á þá leið hvort bresk stjórnvöld hefðu í hyggju að biðja Íslendinga formlega afsökunar á því að ríkisstjórn Verkamannaflokksins undir forystu Gordons Brown beitti hryðjuverkalöggjöf gegn Íslandi í kjölfar þess að stóru viðskiptabankarnir þrír féllu haustið 2008.

Cameron svaraði fyrirspurninni ekki beint en bætti við að þannig væri viðskipti á milli Bretlands og Íslands mikil og ferðamannastraumurinn í báðar áttir að sama skapi. Margir breskir ferðamenn kæmu þannig til Íslands til þess að njóta náttúrufegurðarinnar sem hann hafi meðal annars barið augum í heimsókn sinni til landsins.

Cameron benti einnig á að spennandi hugmyndir væru fyrir hendi um samstarf á sviði orkumála. Vísaði hann þar meðal annars til hugmynda um sæstreng á milli Bretlands og Íslands. Hann sagðist gera sér grein fyrir því að sá málaflokkur væri viðkvæmur en þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra væru sammála um að vinna saman í þeim efnum.

„Þannig að horfum frekar til framtíðar en fortíðar.“

David Cameron og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á blaðamannafundinum.
David Cameron og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á blaðamannafundinum. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert